Innlent

Sparifé í bönkum ber neikvæða vexti

vg þingmenn stjórnmál alþingi Vinstri Grænir framboð 
  
 Lilja Mósesdóttir
vg þingmenn stjórnmál alþingi Vinstri Grænir framboð Lilja Mósesdóttir

Óverðtryggðir sparireikningar bankanna bera margir ýmist neikvæða raunvexti eða eru mjög nálægt því.

Þetta kemur til af því að vextir hafa farið lækkandi á meðan verðbólga hefur haldist í svipaðri prósentutölu. Þetta mun að öllum líkindum ekki breytast mikið, þar sem Seðlabankinn er að reyna að lækka vaxtastigið, að sögn Lilju Mósesdóttur, hagfræðings og alþingismanns. Verðbólgan í júlí var 11,3 prósent samkvæmt tölum Hagstofunnar. Gæta verður þó að því að verðbólga er reiknuð á ársgrundvelli.

„Þetta er í sjálfu sér jákvætt á eins miklum samdráttartímum og við erum að ganga í gegnum núna," segir Lilja. „Það er mjög jákvætt að það séu nærri því neikvæðir raunvextir á sparifé vegna þess að það sem samfélagið og efnahagslífið þarf er að fólk eyði peningum ef það á peninga. Og það er fullt af fólki sem á peninga vegna þess að ríkið tryggði innstæður að fullu." Það sé því í sjálfu sér ekki neikvætt fyrir samfélagið þó það sé neikvætt fyrir einstaklinga að peningarnir séu að brenna upp.

Pétur H. Blöndal alþingismaður segir það mjög alvarlega stöðu þegar vextir verði neikvæðir, sérstaklega til lengri tíma. Hann segir þó að þótt vextir fari lækkandi sé verðbólgan líka á niðurleið.

„Sparnaðarviljinn varð gífurlegur í haust, og það má segja að það hafi orðið algjör umskipti á eyðsluhegðun landans, sem er mjög jákvætt því það var allt of mikil eyðslugræðgi áðan. Svo snerist það yfir í mikinn sparnað sem er kannski fullmikill, því hann veldur nánast stöðvun alls staðar. Það er í þeim skilningi ágætt að vextir séu ekki mjög háir á innistæðum, svo menn séu dálítið fúsir til að eyða þeim. Þetta má hins vegar ekki vara í langan tíma, því þá verður eyðslugleðin of mikil aftur."

Vissulega getur fólk lagt fé inn á verðtryggða reikninga bankanna, en þeir hafa langan binditíma.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×