Innlent

Ríflegur meirihluti styður ESB-viðræður

Merki ESB.
Merki ESB.

Meirihluti þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnun Fréttablaðsins sagðist fylgjandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið (ESB). Alls sögðust 58,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku fylgjandi viðræðum, en 41,5 prósent sögðust andvíg þeim.

Þegar þeir sem sögðust óákveðnir eða vildu ekki svara eru teknir með eru 51 prósent fylgjandi viðræðum, 36,1 prósent á móti, 12,1 prósent óákveðnir og 0,8 prósent vildu ekki svara.

Skiptar skoðanir eru innan allra stjórnmálaflokka um ágæti aðildar­viðræðna, en meirihluti stuðningsmanna beggja stjórnarflokka styður viðræðurnar. Meirihluti stuðningsmanna Sjálfstæðis­flokks og Framsóknarflokks er hins vegar andvígur aðildar­viðræðum.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 89,1 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar styðja viðræðurnar, og 56,8 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna. Af þeim sem sögðust myndu kjósa Borgarahreyfinguna voru 58,3 prósent fylgjandi viðræðum.

Alls voru 46,4 prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn fylgjandi viðræðum, en 53,6 prósent á móti. Um 39,3 prósent stuðningsmanna Framsóknar­flokksins sagðist styðja aðildarviðræður, en 60,7 prósent sögðust á móti.

Hringt var í 800 manns þriðjudaginn 28. júlí. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Ert þú fylgjandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Alls tók 87,1 prósent aðspurðra afstöðu til spurningarinnar.






Tengdar fréttir

VG getur vel við unað niðurstöður könnunar

„Þessar niðurstöður eru í takt við það sem við höfum verið að sjá í öðrum könnunum þar sem spurt hefur verið um afstöðu til aðildarviðræðna. Ég held að það hljóti að vera afskaplega gott fyrir ríkisstjórnina að finna fyrir þetta miklum stuðningi við viðræðurnar,“ segir Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, um skoðanakönnun Fréttablaðsins varðandi aðildar­viðræður við Evrópusambandið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×