Innlent

Erfitt að innheimta arð eigenda Sjóvár

Höskuldur Kári Schram skrifar
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Fjármálaráðherra telur að það verði tæknilega erfitt að innheimta til baka þann arð sem eigendur Sjóvár greiddu sjálfum sér á undanförnum árum. Ríkið lagði í byrjun mánaðarins 16 milljarða króna í félagið til að bjarga því frá þroti.

Sjóvá tapaði 30 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt tilkynningu sem skilanefnd Glitnis sendi frá sér í síðustu viku. Bankinn hefur nú tekið yfir rekstur félagsins en nettó skuldir námu í lok síðasta árs um 16 milljörðum króna.

Nýtt félag var stofnað í kringum vátryggingarstarfsemi Sjóvár í byrjun mánaðarins og setti ríkið 16 milljarða í félagið til forða því frá þroti.

Sjóvá var áður að stærstum hluta í eigu Milestone, eignarhaldsfélags bræðranna Karls og Steingríms Wernersona. Á árunum 2006 til 2008 fékk Milestone greidda rúma 17 milljarða í arð frá Sjóva - eða einum milljarði meira en það sem ríkið hefur nú sett í félagið.

Starfsemi Milstone og Sjóvár er nú í rannsókn hjá sérstökum saksóknara en rannsóknin beinist meðal annar að meintri misnotkun á bótasjóði fyrirtækisins.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, telur ólíklegt að hægt verði innheimta arðgreiðslur til baka en Milstone hefur nú óskað eftir nauðasamningum við lánadrottna sína.

„Ég veit ekki hvort það sé lagalega, tæknilega gerlegt," segir Steingrímur. „Þessi spurning hefur komið upp í fleiri tilvikum þar sem menn greiddu sér ríflega út arð skömmu áður en allt hrundi og lítur skelfilega út. En þið vitið hvernig mál Sjóvár standa. Þetta er allt komið í rannsókn hjá sérstökum saksóknara og við verðum bara að bíða þess að niðurstöður fáist í því. Þar á meðal væntanlega hvernig menn fóru með málefni fyrirtækisins ekki bara að þessu leyti heldur öllu öðru."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×