Viðskipti innlent

Endurfjármögnun erlendra skulda gæti orðið nokkuð torsótt

Hagfræðideild landsbankans gerir greiðsluflæði gjaldeyris að umtalsefni sínu í vefritinu Hagsjá þar sem fjallað er um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins og útreikninga Seðlabankans þar að lútandi. Telur hagfræðideildin að endurfjármögnun erlendra skulda fyrirtækja og hins opinbera geti orðið nokkuð torsótt.

Í Hagsjánni segir að athygli veki að við mat á greiðsluflæði gjaldeyris geri Seðlabankinn ráð fyrir að hægt verði að endurfjármagna erlendar skuldir fyrirtækja og aðrar skuldir hins opinbera en þær sem stofnað var til í því skyni að fjármagna gjaldeyrisvarasjóðinn.

„Í núverandi efnahagsástandi, þar sem lánsfjármarkaðir eru enn mjög erfiðir, má búast við að slík endurfjármögnun gæti orðið nokkuð torsótt. Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða eða lauslega áætlað um 400 - 500 milljarða kr. fram til ársins 2013," segir í Hagsjánni.

„Náist ekki að endurfjármagna þessi lán mun þróun gjaldeyrisforða og greiðslustöðu þjóðarbúsins verða allt önnur og lakari en gert er ráð fyrir í áætlun Seðlabankans.

Og ef fjármögnun næðist á annað borð mætti búast við því að það yrði á mun verri lánskjörum en þau lán sem falla á gjalddaga á næstu misserum og greiðslubyrði af þeim sökum þyngjast. Þar með mætti búast við að gjaldeyrisvarasjóðurinn myndi rýrna hraðar en gert er ráð fyrir í grunndæmi Seðlabankans."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×