Lífið

Helgi Björns næstum fimmtugur í Valhöll

Verður næstum fimmtugur í dag og ætlar að halda upp á það á Hótel Valhöll með tónleikum en nú er verið að blása lífi í þann fornfræga stað.
Verður næstum fimmtugur í dag og ætlar að halda upp á það á Hótel Valhöll með tónleikum en nú er verið að blása lífi í þann fornfræga stað.

„Hvað verð ég gamall? Ehhh, 49 ára. Ég er reyndar búinn að vera það í nokkur ár. Ég ætla að vera það áfram. Þetta er ágætur aldur," segir Helgi Björnsson sem á afmæli í dag og heldur upp á það með tónleikum í Valhöll.

Helgi er þessa dagana á ferð og flugi milli Íslands og Þýskalands, þar sem hann rekur skemmtihús. Bæði er verið að ræsa SSSól-vélina og síðan er Helgi byrjaður að syngja reglulega á föstudagskvöldum í hótel Valhöll í Þingvallasveit. Verður þar með tónleika í kvöld. Helgi segir að nú sé ætlunin að blása lífi í þann frábæra stað en gamalreyndur jaxl úr veitingabransanum ætlar að reyna sig við það - Úlfar Þórðarson sem lengi var á Gauk á Stöng og þá á Hótel Búðum.

„Ég var þarna um síðustu helgi og það var algerlega frábært. Fullt af fólki, sól og við úti í garði. Það stefnir í svipað í kvöld.

Ég syng gamlar íslenskar dægurlagaperlur. Þær eru viðeigandi í Valhöll," segir Helgi og tekur tón­dæmi: „Til eru fræ…" og vippar sér svo óvænt yfir í Brúnaljósin brúnu „Ó, vildu hlusta, elsku litla ljúfan mín…" en áttar sig þá á að þetta eru ekki viðeigandi línur að raula í eyra blaðamanns og vippar sér yfir í Bjössa á mjólkurbílnum. „Þetta er svona ‚fiftís'. Ég er með Kjartan Vald á píanó, Stefán Má á bassa og gítar og Sigurð Flosason á sax og klarinett. Mjög á ljúfum nótum."

Aðspurður hvort Helgi ætli að blanda saman afmælisveislu sinni og tónleikunum segir hann ekki svo vera. „Nei, ég læt nokkra félaga vita. Ég ætla að fá mér einn drykk eftir tónleika í tilefni dagsins. Ég er ekki sérstaklega mikið afmælisbarn. Mér finnst þriðjudagar skemmtilegir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×