Skoðun

Icesave - verðmiði á trausti

Halldór Reynisson skrifar

Icesave-samningurinn liggur nú fyrir Alþingi. Áhöld eru um hvort hann verður samþykktur eða ekki. Ég óttast að það verði Íslands óhamingju að vopni felli þingið samninginn.

Víst er hann ekki góður. En staða okkar sem þjóðar er bara vond. Icesave er okkar erfðasynd vegna svallveislu síðustu ára. Samningurinn okkar yfirbót í augum umheimsins.

Það eru óheilindi sem kenna má við skrum þegar reynt er að gera Icesave að flokkspólitískri deilu. Málið er lagatæknilegt, fjárhagslegt, það snýst um grunntraust á fjármálastarfsemi heillar álfu; að fólk geti lagt sitt sparifé inn í banka við lágmarksáhættu án þess að eiga það á hættu að spariféð gufi upp. Í húfi er traust þess samfélags þjóðanna sem við teljum okkur tilheyra, norræna samfélagsins, evrópska samfélagsins. Þegar slíkt traust er annars vegar er enginn eyland, ekki einu sinni við Íslendingar.

Fyrri ríkisstjórn hefði líka þurft að semja um Icesave. Sennilega hefði útkoman orðið sú sama því málið er eins og áður segir tæknilegt, jafnvel siðferðilegt. Það er því misskilningur, í versta falli yfirdrepskapur þegar reynt er að finna þessum samningi allt til foráttu. Sumir telja sig rata aðra leið. Er það kannski hin leiðin fræga?

Hvað ef samningurinn verður felldur? Stjórnarkreppa? Sundurlyndi? Mánaða eða missera kyrrstaða? Eyðilandið Ísland?

Við þurfum að byggja upp traust á okkur. Og traust er bara dýru verði keypt hafi það eitt sinn glatast. Því miður, Icesave er verðmiðinn.

Höfundur er prestur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×