Innlent

Keyrði á lögreglubíl og slökkiviliðsstöðina í Skógarhlíð

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar

Eltingarleik lögreglu við mann á svörtum Cherokee jeppa lauk við planið fyrir aftan lögreglustöðina á Hverfisgötu fyrir um 40 mínútum síðan. Hann hafði þá stórskemmt lögreglubíl sem hann keyrði á, auk þess sem hann hafði gert tilraun til að keyra inn í fjarskiptamiðstöð lögreglunnar við Skógarhlíð 16.

Eltingaleikurinn hófst eftir áhlaup mannsins á Skógarhlíðina, en þar hafði hann reynt að keyra í gegn um allar útkeyrsludyr slökkviliðsins. Lögreglumenn sem komu aðvífandi áttu fótum fjör að launa þegar maðurinn keyrði á bíl þeirra.

Eltingarleikurinn stóð þaðan og eftir Snorrabrautinni, en að sögn lögreglu keyrði maðurinn á fólksbíl á leiðinni. Sjúkrabíll reyndi að stöðva manninn með því að keyra á hann, en án árangurs. Maðurinn var loks handtekinn á planinu aftan við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Hann var óvopnaður og talinn lítið sem ekkert slasaður.

Einn lögreglumaður hlaut minniháttar meiðsli í æsingnum.

Maðurinn hafði hringt í fréttastofu fyrr um kvöldið og beðið um umfjöllun. Hann var þá í talsverðu uppnámi og sagðist eiga óuppgerðar sakir við lögregluna.

Hann hringdi aftur síðar um kvöldið, enn órólegri en í fyrra skiptið. Þá sagðist hann vera á tveggja tonna jeppa á 140 kílómetra hraða á leið niður í miðbæ. Hann sagðist ætla að keyra inn í lögreglustöðina og talaði síðan um að keyra inn í samskiptamiðstöð lögreglunnar. Auk þess hótaði hann að skaða lögreglumenn eða -bíla ef þeir yrðu á vegi hans.

„Finnst þér ekki fáránlegt að ég sé að segja þetta?" sagði maðurinn og sagðist vera kominn með nóg af því að lögreglan vildi ekki ræða við hann. Hann sagðist grípa til þessara ráða til að fá loksins einhverja athygli.

Fréttamaður reyndi að róa manninn niður og segja honum að fara heim án árangurs. Símtalinu lauk þegar maðurinn sagðist ætla að fá leiðbeiningar 118 símaskrár til að finna Skógarhlíð 16, þar sem hann sagðist ætla að keyra inn í húsið.

„Þú átt eftir að heyra af þessu í kvöld."

























Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×