Viðskipti innlent

Gjaldeyrisforðinn rýrnar verulega við afnám haftanna

Gjaldeyrisforði Seðlabankans mun rýrna verulega eftir að hafist verður handa um að afnema gjaldeyrishöftin sem gilda í landinu. Reiknað er með að höftin verði afnumin í áföngum og að sú þróun hefjist í haust.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið og vitnar í orð fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi í vikunni.

Ekki er hægt að afnema gjaldeyrishöftin nema full vissa sé fyrir stöðugleika sagði Franek Rozadowski, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga á þriðjudaginn. Áherslan á gengisstöðugleika er tilkominn vegna þess hversu mikil gengisáhætta er í efnahagsreikning fyrirtækja og heimila.

Rozadowski segir að þegar höftin verði afnumin megi reikna með því að ganga muni verulega á gjaldeyrisforðann. Nú er unnið að uppbyggingu forðans með lántökum bæði frá AGS, skandínavísku ríkjunum o.fl. Hugmyndin er sú að hefja afnám haftanna seint á þessu ári.

Rozadowski sagðist telja að mikilvæg framfaraskref í efnahagsmálum yrðu stigin á næstu tveim mánuðum. Annars vegar væri útlit fyrir að aðskilnaður nýju og gömlu bankanna yrði lokið fljótlega og hins vegar væri stefnt að því að kynna yfirstjórn AGS endurskoðaða áætlun seint í júlí eða í ágúst en það er forsenda þess að annar hluti láns AGS til íslenskra stjórnvalda sé afgreiddur.

Í kjölfarið sagði Rozadowski að afnám gjaldeyrishaftanna gætu hafist í áföngum seint á þessu ári. Sagði hann að Seðlabankinn yrði að vera búinn undir skell á þeim tíma og því gæti gengið á gjaldeyrisforðann. Rozadowski varar jafnframt við lækkun stýrivaxta í þessu umhverfi þar sem með lækkun gæti skapast hætta á gengisfalli sem gæti reynst mjög erfitt að snúa til baka.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×