Innlent

Réð pabba í vinnu

Valur Grettisson skrifar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja réð föður sinn sem umsjónarmann íþróttamiðstöðvar í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja réð föður sinn sem umsjónarmann íþróttamiðstöðvar í Vestmannaeyjum.

Hörð átök voru á bæjarstjórnarfundi í Vestmannaeyjum fyrir helgi en þar bókaði minnihluti V-listans gegn ráðningu nýs forstöðumanns íþróttamiðstöðvarinnar sem og ráðningu umsjónarmanns sömu miðstöðvar.

Ástæðan fyrir mótmælum minnihlutans er sú að nýráðinn forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar er eiginmaður bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Páleyju Borgþórsdóttur sem er formaður bæjarráðs Vestmannaeyja.

Þá var faðir Elliða Vignissonar bæjarstjóra Vestmannaeyja, ráðinn sem umsjónarmaður íþróttamiðstöðvarinnar.

Í DV í morgun segir að Páley og Elliði hafi ekki vikið af bæjarráðsfundi þegar faðirinn og eiginmaðurinn voru ráðin.

Í bókun V-listans segir: „Það er í raun sláandi að gengið hafi verið á svig við þær reglur sem gilda um ráðningar hjá Vestmannaeyjabæ, sérstaklega vegna þess að meðal umsækjenda um þessi störf voru einstaklingar nátengdir yfirmönnum og bæjarfulltrúum."

Þá er sérstaklega vakin athygli á því að starf umsjónarmannsins, sem faðir bæjarstjórans var ráðin í, er nýtt starf. Þá vill V-listin meina að staðan sé í sjálfu sér algjörlega óþörf.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins svöruðu bókun V-listans á fundi bæjarstjórnar og gerðu það fullum hálsi. Þar segir: „Dylgjur um að staða umsjónarmanns sé óþörf er hreint fáránleg. Fyrir það fyrsta liggur fyrir að ekki er verið að fjölga stöðugildum við Íþróttamiðstöðina heldur er um innanhússbreytingar að ræða og tilflutning á stöðugildum."

Þá segja Sjálfstæðismenn að störfin hafi verð auglýst og að hæfasta fólkið hafi verið ráðið í þau.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×