Innlent

Boða alþjóðlega baráttu gegn olíuvinnslu á Jan Mayen-svæðinu

Einni viku áður en Íslendingar fengu fyrstu tilboð í Drekasvæðið tók ríkisstjórn Noregs fyrsta skrefið til að opna á olíuvinnslu á norska hluta Jan Mayen svæðisins. Umhverfissamtök í Noregi segja þetta hneyksli og boða alþjóðlega baráttu gegn áformum um olíuvinnslu á svæðinu. Norðmenn ætla þó að friða næsta nágrenni Jan Mayen en bjóða eyjuna undir þjónustumiðstöðvar við olíuleit.

Samkvæmt samkomulagi ríkjanna eiga Norðmenn rétt á að nýta 25% af því sem finnst á hluta Drekasvæðisins Íslandsmegin og Íslendingar eiga 25% nýtingarétt á enn stærra svæði Noregsmegin. Ákvörðun norsku stjórnarinnar gæti því því haft mikla efnahagslega þýðingu fyrir Íslendinga í framtíðinni finnist þar olía á annað borð.

Ákvörðunin er í norskum fjölmiðlum skýrð með því að Íslendingar hafi þegar ákveðið að leyfa olíuvinnslu á Jan Mayen hryggnum. Olíumálaráðherra Noregs, Terje Riis Johansen, undirstrikar þó að ekki sé sjálfgefið að ferlið leiði til þess að olíuboranir verði leyfðar. 30 kílómetra hafsvæði umhverfis Jan Mayen verður friðað en tekið fram að það komi ekki í veg fyrir að leyft verði að setja upp þjónustumiðstöðvar á eynni. Norðmenn ætla þannig ekki að láta Íslendinga eina um að njóta tekna af þjónustu við olíuleit á Jan Mayen-svæðinu.

Landssamtök norska olíuiðnaðarins fagna ákörðun norsku ríkisstjórnarinnar meðan umhverfissamtök gagnrýna hana harðlega. Frederic Hauge, forseti Bellona, helstu umhverfissamtaka Noregs, segir um Jan Mayen opnunina að það sé hneyksli að ríkisstjórn landsins hafi nú tekið fyrsta skrefið í átt að olíuborunum á Norðurskautssvæðum. Hann boðar aðgerðir gegn áformunum, bæði í Noregi og á alþjóðavettvangi.

Það þykir til marks um þá virðingu sem Bellona-samtökin og Frederic Hauge njóta að tímaritið Time setti hann fyrir tveimur árum á lista yfir helstu umhverfishetjur heims og var hann þar í flokki með mönnum eins og Al Gore og David Attenborough.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×