Innlent

Laun bankastjóranna lækka um rúm 800 þúsund

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Laun bankastjóra Íslandsbanka og Kaupþings munu lækka um að minnsta kosti 815 þúsund krónur verði launum starfsmanna ríkisins breytt þannig að engin hafi hærri laun en forsætisráðherra. Laun þeirra nema nú 1750 þúsund krónum eftir því sem komið hefur fram í fjölmiðlum, en forsætisráðherra hefur 935 þúsund krónur á mánuði samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu. Laun bankastjóra Landsbankans nema 1500 þúsund krónum og eru því 565 þúsund krónum hærri en laun forsætisráðherra.

Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítalans, hefur rétt rúmar 1390 þúsund krónur í laun á mánuði samkvæmt upplýsingum frá Kjararáði og er því með um 455 þúsund krónum meira en forsætisráðherra.

Samkvæmt upplýsingum frá Guðmundi Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, eru laun hans um 1218 þúsund krónur á mánuði og er því munur á launum hans og forsætisráðherra 283 þúsund krónur. Þá er Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, með 1250 þúsund krónur í laun eftir því sem fram kom í fréttum RÚV í gær. Það er 315 þúsund krónum meira en forsætisráðherra.

Laun Páls Magnússonar útvarpsstjóra eru 1155 þúsund krónur, ef frá eru talin bifreiðahlunnindi, sem myndi þýða 220 þúsund króna launalækkun fyrir hann, nái tillögur ríkisstjórnarinnar fram að ganga.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, treysti sér ekki til þess að gefa upp laun sín þegar fréttastofa hafði samband við hann í gær en sagði ljóst að hann væri með hærri laun en forsætisráðherra.











Jóhanna Sigurðardóttir er með 935 þúsund krónur á mánuði í laun.
Ásmundur Stefánsson, forstjóri Landsbankans mun lækka um 565 þúsund krónur.
Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, mun lækka um 815 þúsund.
Finnur Sveinbjörnsson, forstjóri Kaupþings mun lækka um 815 þúsund.
Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri Landspítalans, lækkar um 455 þúsund krónur hið minnsta.
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunnar, gefur ekki upp hvað hann er með í laun á mánuði.
Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs er með 1218 þúsund krónur í laun á mánuði í dag.
Gunnar Andersen er með 1250 þúsund krónur.
Laun Páls Magnússonar útvarpsstjóra lækka sennilega um 350 þúsund.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×