Innlent

Erlendir fjölmiðlar fá ekki viðtöl fram að kosningum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir ætlar ekki að tala við erlenda fjölmiðlamenn fyrr en daginn eftir kosningar. Mynd/ Anton Brink.
Jóhanna Sigurðardóttir ætlar ekki að tala við erlenda fjölmiðlamenn fyrr en daginn eftir kosningar. Mynd/ Anton Brink.
Forsætisráðherra mun ekki veita erlendum fjölmiðlum viðtöl fyrr en eftir kosningar. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að bæði fréttamenn frá Al Jazeera og AP fréttastofunum hafi falast eftir viðtölum við ráðherra í aðdraganda kosninga, en ekki fengið tíma með ráðherra.

Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður ráðherra, kannast við að erlendum fréttamönnum hafi verið synjað um viðtöl fyrir kosningar. Til standi að halda blaðamannafund með erlendum fjölmiðum daginn eftir kosningar. Ástæðan sé einfaldlega sú að það sé svo mikið að gera hjá ráðherranum fram að því.

Pólitískir andstæðingar forsætisráðherra hafa gert fjölmiðlasamskipti forsætisráðherra að umfjöllunarefni frá því að hún tók við embætti. Í kjölfar leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins birtist til dæmis pistill á vefritinu Deiglunni, sem haldið er úti af nokkrum sjálfstæðismönnum. Þar var fjallað um fjarveru Jóhönnu á fundinum.

Í pistlinum er fullyrt að íslensk stjórnvöld hafi farið þess á leit við höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins að íslenski forsætisráðherrann fengi að halda ræðu sína á fundinum á íslensku, þar sem enskukunnátta hennar væri mjög takmörkuð. Þegar að þessari umleitan hafi verið hafnað hafi verið ákveðið að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra myndi sækja fundinn fyrir hönd Íslands.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×