Innlent

Hústökufólk á Vatnsstíg

Um 200 manns höfðu komið sér fyrir innandyra og utan við mannlaust hús við Vatnsstíg og neituðu að yfirgefa það síðdegis þrátt fyrir tilmæli eigenda. Óskað hefur verið eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja hústökufólkið.

Hópur fólks kom sér fyrir í húsinu númer fjögur við Vatnsstíg fyrir nokkrum dögum. Hústökufólkið ætlaði að stofna þar félagsmiðstöð, þar sem stunda átti róttæka pólitíska starfsemi og annað sem fólki dytti í hug.

Þetta er hús í eigu annarra hvaða rétt hefur þessi hópur til þess að fara inn í þetta hús?

„Þessir menn sem eru búnir að leggja Ísland í rúst, menn eins og Björgólfur Guðmundsson sem hafa verið að kaupa upp hús hérna í miðbænum hafa engann rétt á að eiga þessi hús. Þeir eru ekki bara búnir að leggja Ísland í rúst, heldur líka leggja miðbæinn í rúst og við ætlum ekki að láta það ganga. Þessu er lokið," segir Magnús Snæbjörnsson einn af meðlimum hópsins.

Eigandi hússins er byggingafyrirtækið ÁF hús, en það gaf hústökufólkinu frest til klukkan fjögur í dag til að yfirgefa húsið, en á þeim tíma hafði á annað hundrað manns hins vegar komið sér fyrir bæði innandyra og utan.

Óskað var eftir liðsinni lögreglu við að rýma húsið, en talsmaður hennar sagði verulega hættu stafa af viðveru fólksins þar, enda væri húsið bæði rafmagns- og vatnslaust. Eldhætta er sögð afar mikil og því er talið nauðsynlegt að grípa til aðgerða.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×