Innlent

Segir ofurstyrkina styðja málflutning sinn í borgarstjórn

Breki Logason skrifar
Ólafur F Magnússon
Ólafur F Magnússon
Ólafur F Magnússon borgarfulltrúi fagnar því að komið hafi í ljós hverjir helstu styrktaraðilar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins séu. Hann segir þetta styðja í einu og öllu sinn málflutning í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann segist ætla að krefjast þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri svari því til hvort Landsbankinn hafi styrkt hana í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur hefur haldið því fram að Óskar Bergsson forseti borgarstjórnar hafi fengið ríflega styrki frá byggingarfélaginu Eykt í prófkjöri sínu. Nú hefur komið í ljós að Eykt var stærsti styrktaraðili Framsóknarflokksins og segir Ólafur það ekki koma sér á óvart.

„Ég ætla að krefjast þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir svari því til hvort hún hafi þegið styrki frá Samson, eða Landsbankanum, í prófkjöri sínu. Ég tel að það sé ástæða þess hvað hún snérist hart gegn eigin sannfæringu í Listaháskólamálinu," segir Ólafur.

Hann segir það fagnaðarefni nú þegar hin ýmsu þrotabú séu gerð upp að í ljós komi hversu miklir ræningjaflokkar það séu sem enn myndi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. „Þessi meirihluti hefur að mínu mati verið á útopnu undir styrkri stjórn Eyktar-Skara og Samson-Birnu en þau ganga undir þessum nöfnum hjá okkur í Frjálslynda flokknum," segir Ólafur.

„Þetta styður í einu og öllu minn málflutning en ég hef harðlega gagnrýnt þennan fyrirgreiðslumeirihluta. Ég geri mér vonir um að þegar kemur að því að þessi meirihluti neyðist til þess að svara fyrir þetta, haldi hann ekki út þetta kjörtímabil. Það er löngu ljóst að þau eru ekki siðferðilega hæf til þess," segir Ólafur sem staddur var úti í garði hjá sér þegar fréttastofa náði af honum tali.

„Það kemur óneitanlega upp í huga minn nú að garðurinn minn kemur mun betur undan vetir en Sjálfstæðisflokkurinn. Þó hér sé ýmislegt sem komi fram þá er það ekkert í samanburði við öll spillingarmálin sem koma undna vetri hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég vona því að það flæði loksins undan þessum blessuðu flokkum sem hafa arðrænt þjóðina völdum og eru enn við völd í borginni."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×