Fastir pennar

Öryggi sjómanna stofnað í tvísýnu

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Fréttablaðið hefur undanfarna daga fjallað um málefni þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar og öryggi sjómanna við strendur Íslands. Myndin sem dregin er upp er dökk enda er það mat manna að öryggi sjómanna við strendur landsins sé í þann veginn að færast aftur um áratugi. Öryggi sjómanna verður þá minna en það var árið 1971 þegar þyrlubjörgunarsveit bandaríska flughersins kom hingað til lands. Ástæðan er uppsagnir þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæslunni.

Að auki hefur sú staða komið upp tvisvar á þessu ári, í samtals níu daga, að báðar stóru Super Puma björgunarþyrlur Landhelgis­gæslunnar hafa verið óflughæfar á sama tíma. Þegar svo háttar til er aðeins minnsta þyrla Gæslunnar til taks að sinna útköllum. Sú þyrla hefur bæði minni burðargetu og minni fluggetu en stærri þyrlurnar, tekur átta farþega og einungis einar sjúkrabörur meðan hinar stærri taka allt að tuttugu farþegum og sex til níu sjúkrabörur. Þetta er auðvitað óforsvaranlegt þegar frystiskip með allt að þrjátíu manna áhöfn eru að veiðum fjarri landi í öllum veðrum og þrettán til fimmtán menn eru í áhöfn minni togskipa.

Eftir að uppsagnir þyrluflugmannanna taka gildi í sumar og haust verður einungis ein þyrluáhöfn á vakt tuttugu daga í hverjum mánuði; í um 240 daga á ári. Þetta þýðir að ef skip lendir í sjávarháska utan tuttugu sjómílna frá landi verður ekki hægt að koma sjómönnunum til aðstoðar nema þriðjung ársins. Í 240 daga á ári verða íslenskir sjómenn því að treysta því að staðsetning herskips Dana við Færeyjar og Grænland sé hagstæð með tilliti til hugsanlegra sjóslysa við landið.

Það er vissulega nöturleg staðreynd að íslenskir sjómenn skuli vinna störf sín við þau skilyrði að engan veginn sé öruggt að hægt verði að koma þeim til hjálpar lendi þeir í sjávarháska. Víst er að ekki er hægt að velja sjóslysum tíma á þeim þriðjungi ársins sem tvær þyrlusveitir eru á vakt hjá Gæslunni en ekki ein, og er þá ekki tekið tillit til þess að vélarkosturinn kann að bregðast líka.

Á meðan öryggismál sjómanna við Íslandsstrendur eru í óefni standa óhaggaðar áætlanir þess efnis að auka við tækjakost Landhelgisgæslunnar. Ný flugvél Gæslunnar kemur til landsins í sumar, nýtt varðskip verður afhent í upphafi næsta árs og fyrir dyrum stendur útboð í samvinnu við Norðmenn um kaup á þremur stórum björgunarþyrlum. Samkvæmt fréttaskýringu Fréttablaðsins í dag er kostnaður vegna þessara verkefna lauslega áætlað þrettán til sextán milljarðar króna. Hitt virðist þó liggja fyrir að miðað við þann niðurskurð sem fram undan er hlýtur að vera alls kostar óljóst hvernig manna á og reka þessi tæki.

Öllum er ljóst að fyrir dyrum stendur niðurskurður í ríkisrekstri og að sá niðurskurður er og verður sársaukafullur. Hins vegar er ábyrgðarhlutur ef stjórnvöld ætla að skilja við öryggismál sjómanna í þeim farvegi sem þau eru nú. Það er óviðunandi að ekki sé hægt að sinna björgun sjómanna af helstu fiskimiðum alla daga ársins.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×