Innlent

Óvíst hver á að reka tónlistarhúsið

Ingimar Karl Helgason. skrifar

Áætlað er að tónlistar og ráðstefnuhúsið verði opnað eftir tvö ár. Það á hins vegar ekki að ráðast fyrr en eftir fimm ár hver á að reka eða eiga húsið. Viðbúið er að stór og djúpur grunnur við hlið tónlistarhússins verði opinn næstu árin.

Málefni tónlistar og ráðstefnuhússins hafa farið á nokkuð annan veg en ætlað var í upphafi. Gamli Landsbankinn og Nýsir ætluðu í gegnum félagið Portus að standa að byggingu hússins, í samstarfi við félag ríkis og borgar, Austurhöfn. Nú er þetta alfarið komið í hendur ríkis og borgar. Raunar ekki bara tónlistarhúsið, því Gamli Landsbankinn og Nýsir höfðu líka áform um hótel, Reykavík World trade center og fleira, í gegnum félagið Sítus, sem borg og ríki hafa líka yfirtekið.

Fréttastofa hefur undir höndum samning um yfirtöku ríkis og borgar á Portusi, Sítusi og byggingarrétti á hafnarbakkanum. Þar kemur meðal annars fram að nokkur óvissa ríkir um framhald verkefna. Þar segir að í kjölfar samningsins eigi að meta hvaða eignarhalds og rekstrarforsendur henti verkefninu best.

Til álita komi að bjóða út rekstur tónlistar og ráðstefnuhússins til óskylds aðila, en einnig að dótturfélög Portusar, sem er nú í opinberri eigu, eigi og reki verkefnið þangað til það verð selt í heild sinni. Fimm ár eru gefin í samningnum til að ganga frá þessum málum. Til stendur að opna tónlistarhúsið eftir tvö ár.

Þá er enn fremur óvissa um byggingasvæðið. Mikill grunnur er opinn á lóðinni við hlið tónlistarhússins, eins og margir hafa tekið eftir. Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar, segir óvíst hvenær eitthvað verður gert við grunninn.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×