Innlent

Ekki fleiri mótmælafundir - í bili

Raddir fólksins, sem hafa staðið fyrir mótmælafundum á Austurvelli í allan vetur, eða síðan 11. október, boða hér með hlé á fundunum um óákveðinn tíma. Enginn fundur verður því á Austurvelli á morgun, laugardaginn 21. mars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herði Torfasyni forsprakka Radda fólksins. Hann hvetur fólk þó til að láta ekki deigan síga og vera á verði, viðhafa gagnrýna hugsun og veita íslenskum stjórnmála- og peningamönnum virkt aðhald.

„Fundir Radda fólksins hafa byggst á sjálfsprottnu og ólaunuðu framtaki vegna þeirra mannréttindabrota sem framin hafa verið á þjóðinni. Fundirnir hafa haft mikil áhrif, verið leiðandi afl í því andófi sem viðhaft hefur verið, náð mjög miklum árangri og verið fastur punktur í tilveru þúsunda Íslendinga í allan vetur. Fundirnir hafa ekki síst veitt gríðarlega stórum hópi fólks félagslegan og andlegan stuðning í þeim hremmingum sem dunið hafa á íslensku samfélagi. Vel á sjötta tug ræðumanna hafa haldið þar ræður undir yfirskriftinni: Breiðfylking gegn ástandinu," segir í tilkynningunni.

Þá biðjast Raddir fólksins velveriðingar á hve seint þessi ákvörðun var tekin en það mun hafa verið vegna af óviðráðanlegum ástæðum.

„Við munum halda vöku okkar áfram og boða til fundar ef þurfa þykir og almenningur krefst aðgerða."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×