Innlent

Neitað um skýrslur vegna bankaleyndar - þrjú mál til skoðunar

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Fjármálaeftirlitið á ekki að grisja þær upplýsingar sem sérstakur saksóknari fær segir þingmaður vinstri grænna. Embættið hefur óskað eftir skýrslum endurskoðenda um gömlu bankanna frá Fjármálaeftirlitinu en verið neitað á grundvelli bankaleyndar. Þrjú mál eru komin inn á borð hjá sérstökum saksóknara.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að embættið sé að byrja rannsóknir í einstökum málum. Þrjú stór mál séu nú til rannsóknar auk annarra minni. Heimildir fréttastofu herma að þau mál sem nú eru til rannsóknar séu tengd tveimur bönkum. Annar þeirra mun vera Kaupþing. Þá eru málin tengd lánveitingum til eigenda og fjármagnsflutningum úr landi. Enn hefur enginn verið kallaður í yfirheyrslur. Ólafur segir að embættið sé að bíða eftir skýrslum endurskoðunarfyrirtækja um gömlu bankanna sem liggja inni hjá fjármálaeftirlitinu, en óskað var eftir þeim um miðjan febrúar. Skýrslurnar skipti máli til að gera sér grein fyrir málunum í heild sinni.

Hjá Fjármálaeftirlitinu fengust þær upplýsingar að í skýrslunum væri mikið af þagnarskyldum upplýsingum um atriði sem Fjármálaeftirlitið telur ekki vera lögbrot og því eigi þær ekki erindi til sérstaks saksóknara. Fjármálaeftirlitið hafi nú þegar sent embættinu 4 mál ásamt öllum þeim gögnum sem hefur verið aflað í tengslum við þau, þar á meðal viðeigandi kafla úr skýrslunum.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna, gagnrýndi þann tíma sem hefur tekið fjármálaeftirlitið að bregðast við beiðni saksóknarans. Hann gagnrýndi að Fjármálaeftirlitið grisjaði upplýsingar fyrir sérstakan saksóknara, hann ætti að gera það sjálfur.

Dómsmálaráðherra hefur nú lagt fram lagafrumvarp sem felur í sér að sérstakur saksóknari fái auknar heimildir til þess að kalla eftir upplýsingum og gögnum








Fleiri fréttir

Sjá meira


×