Innlent

Biðlaun gætu numið 37 milljónum króna

Kostnaður ríkisins vegna biðlauna þeirra ráðherra og aðstoðarmanna sem létu af störfum við síðustu ríkisstjórnarskipti gæti numið 37 milljónum króna. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Níu fyrrverandi ráðherrar eiga rétt á biðlaunum í hálft ár en sex mánaða biðlaunaréttur myndast ef ráðherrar hafa setið í eitt ár eða lengur. Einn þessara níu, Björgvin G. Sigurðsson, hefur þó afsalað sér rétti til biðlauna. Það eru því átta ráðherrar sem njóta biðlauna næstu sex mánuði og nemur kostnaður við það 16,5 milljónum króna.

Þess ber þó að geta að biðlaun ráðherra falla niður verði viðkomandi ráðherra á ný í næstu ríkisstjórn en kosið verður til Alþingis þann 25. apríl næstkomandi. Þeir ráðherrar sem komu nýir inn í minnihlutastjórnina sem nú fer með völd en verða ekki í embættum eftir kosningar öðlast þá rétt til biðlauna í þrjá mánuði.

Níu fyrrverandi aðstoðarmenn ráðherra létu af störfum við ríkisstjórnarskiptin. Í svari ráðuneytisins segir að ekki liggi fyrir hvort þeir muni allir nýta sér þriggja mánaða biðlaunum í samræmi við lögbundinn rétt þeirra. Muni þeir allir nýta þennan rétt, gerir það kostnað fyrir ríkissjóð upp á rétt tæpar 20 milljónir króna. Mánaðarlaun aðstoðarmanna eru 639.355 krónur en við það bætist föst yfirvinna, um hundrað þúsund krónur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×