Innlent

Geir ósáttur við brotthvarf bankaráðsformanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins er ósáttur við brotthvarf bankaráðsformannanna.
Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins er ósáttur við brotthvarf bankaráðsformannanna.

Það er óskiljanlegt að ríkisstjórnin skyldi stugga við formönnum bankaráða Kaupþings og Glitnis, að mati Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins. Geir gerði brotthvarf þeirra að umtalsefni í utandagskrárumræðu um efnahagsmál á þingi nú á fjórða tímanum. Geir sagði mikilvægt að stöðugleiki næðist í rekstri bankanna. Það væri sérlega óskiljanlegt að stuggað hefði verið við formönnum bankaráðanna í ljósi þess að bankaráð nýju bankanna hefðu verið skipuð í góðri samvinnu við þáverandi stjórnarandstöðuflokka og Vinstri grænir hefðu notið góðs af því.

Magnús Gunnarsson, formaður bankaráðs Kaupþings, og Valur Valsson, formaður bankaráðs Glitnis, hafa sagt af sér störfum. Þeir hafa sagt að pólitískur vilji sé til þess að gera breytingar á stjórn bankanna eftir að ríkisstjórnarskipti áttu sér stað. Eftir að bréf þeirra, þar sem þeir tilkynntu um afsögn sína, var gert opinbert óskaði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra eftir því að þeir myndu starfa áfram. Í það minnsta framyfir aðalfundi bankanna í apríl. Þeir hyggjast ekki verða við óskum Steingríms J. Sigfússonar.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þvertók hins vegar fyrir það við þingumræðuna að um pólitískar hreinsanir sé að ræða. Formenn bankaráðanna hafi átt frumkvæðið að brotthvarfi þeirra. Hann spurði jafnframt hvort að sjálfstæðismenn hefðu meiri áhyggjur af af atvinnu eins til tveggja flokksgæðinga heldur en atvinnuleysi 13 - 14 þúsund manns.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×