Viðskipti innlent

Sigurður Einarsson gefur lítið fyrir ummæli Tony Shearer

„Ég gef lítið fyrir þau ummæli sem Tony Presley Shearer hefur viðhaft um Kaupþing meðal annars fyrir þingnefnd í Bretlandi," segir Sigurður Einarsson fyrrum forstjóri Kaupþings.

„Þessi ummæli verður að skoða í því ljósi að fljótlega eftir yfirtöku Kaupþings á Singer & Friedlander tjáðum við honum að hann væri ekki í framtíðaráformum okkar". Eins og fram hefur komið í fréttum hér telur Shearer sem er fyrrverandi forstjóri Singer & Friedlander, banka Kaupþings í Bretlandi, að yfirmenn Kaupþings hafi alls ekki verið hæfir sökum reynsluleysis í alþjóðamálum og bankarekstri.

Sigurður segir að frá fyrstu kynnum hafi Shearer tekið þeim mjög vel en eftir að honum var sagt upp breyttist afstaða hans gagnvart Kaupþingi á undurskömmum tíma, enda tók hann uppsögninni þunglega. „Við buðum honum þá að vera stjórnarformaður til skamms tíma á meðan yfirtakan færi í gegn, en hann afþakkaði það," segir Sigurður.

„Mér þykir furðulegt að þessi maður sé að tjá sig með þeim hætti sem hann gerir, því undir hans stjórn hafði breska fjármálaeftirlitið gert alvarlegar athugasemdir við rekstur Singer & Friedlander og kom það í hlut stjórnenda Kaupþings að lagfæra þau mál. Fjármálaeftirlitið kannaði okkur mjög rækilega í tvígang án nokkurra teljandi athugasemda og hefur alfarið vísað á bug ávirðingum Tony Presley Shearer. Ég gef því satt að segja ekkert fyrir þessi ummæli hans."

„Ég harma það annars að nota eigi nafn Kaupþings í þeim pólitíska tilgangi að koma höggi á breska fjármálaeftirlitið, en Kaupthing Singer & Friedlander var í mjög góðu ástandi allt þar til tilraun var gerð til að þjóðnýta Glitni banka vikuna fyrir fall bankans."

„Þeir sem þekkja rekstur Kaupþings sjá á augabragði að ýmsar tölulegar upplýsingar um rekstur okkar sem Tony Presley Shearer hefur nefnt eru rangar og sumar reyndar algerlega út úr kú. Hlutfall gengishagnaðar í rekstri Kaupþings var um það bil þriðjungur af hagnaði fyrir það tímabil sem hann vísar til en ekki 90% eins og hann nefnir og svona gæti ég áfram haldið."










Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×