Viðskipti innlent

Dreginn í svaðið sem fjárglæframaður

Ég hef verið dreginn inn í svaðið sem fjárglæframaður segir Ólafur Ólafsson en lán fyrir kaupum hins konungsborna Al-Thani frá Katar á tuttugu og fimm milljarða króna hlut í Kaupþingi fór í gegnum félag í eigu Ólafs á Jómfrúareyjunum. Íslensku bankarnir voru rændir innan frá, segir formaður félags fjárfesta.

Í yfirlýsingu Sigurðs Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, kemur fram að bankinn lánaði félögum í eigu Sheik Al-Thani og aðila tengdum honum samtals 25,6 milljarða við kaupin á 5% hlut í Kaupþingi. Sheikinn var í sjálfsskuldarábyrgðun fyrir helmingi fjárfestingarinnar en afgangurinn var tryggður með veði í bréfunum sjálfum. Lánið fór í gegnum tvö félög á bresku Jómfrúareyjunum. Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, er eigandi annars þess félags.

Ólafur segist ekki hafa lagt neitt fé inn í viðskiptin. Hann hafi ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni. Persónulegt tjón hafi hinsvegar verið mikið þar sem hann hafi verið dreginn í svaðið sem fjárglæframaður.

Ólafur segist hafa upplýsingar um það að Al Thani fjölskyldan hafi 8. október sl. greitt 12,5 milljarða króna. Eftir það hafi gjaldeyrismarkaðir lokast og því hafi hann haft milligöngu um að greiða eftirstöðvarnar, 402 milljónir, fyrir fjölskylduna.

Í yfirlýsingu Sigurðar kemur fram að hlutirnir sem Sheikinn keypti hafi verið hlutir sem þúsundir íslenskra fjárfesta höfðu selt bankanum síðustu vikurnar fyrir kaupin og því hafi engir innherjar verið þeirra á meðal. Vilhjálmur Bjarnason, formaður félags fjárfesta, telur að það séu vísbendingar um annað.

Vilhjálmur telur að þær miklu lánveitingar íslensku bankanna til hlutabréfakaupa hafi verið hreinn þjófnaður frá hluthöfum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×