Viðskipti innlent

Forstjóri Kauphallarinnar segir tímabært að ræða einkavæðingu ríkisfyrirtækja

Þórður Friðjónsson.
Þórður Friðjónsson.

Það þarf að fara að ræða um það hvernig staðið verði að sölu á ríkisfyrirtækjum til frambúðareigenda. Þetta sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Þórður sagði að Íslendingar yrðu að stefna að því að fara í markaðsbúskap. „Og hvernig förum við inn í markaðsbúskap. Það er með því að koma fyrirtækjum í hendurnar á frambúðareigendum aftur og það gerist með einkavæðingu eða sölu á fyrirtækjunum til einkaaðila aftur," sagði Þórður.

Hann sagði að það þyrfti að standa vel að einkavæðingunni og ferlið þyrfti að vera gegnsætt. Hann tók fram að hann væri ekki að leggja til að eigendur sem hefðu skuldsett fyrirtæki sín í kaf fengu skuldir sínar afskrifaðar og gætu rekið þau áfram. „Heldur einfaldlega að það verði gert með einhverjum gegnsæjum og heilbrigðum hætti, að fyrirtækjum verði komið til frambúðareigenda þannig að það geti stuðlað að aukinni framleiðni og afköstum í þjóðfélagi, sem er jú þegar allt kemur til alls undirstaðan fyrir því að við getum lifað hér góðu lífi til frambúðar," sagði Þórður.

„Það má ekki láta fortíðina hafa þau áhrif að maður festist í einhverju forneskjulegu kerfi sem nægir ekki til að búa til þau verðmæti sem við þurfum hjá okkur," sagði Þórður.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×