Viðskipti innlent

Bankarnir gætu fallið aftur vegna erlendra skulda

Erlendar skuldir íslenskra fyrirtækja og heimila gætu leitt til þess að bankarnar fari aftur í þrot. Starfshópur á vegum ríkisins vinnur nú að því að endurskipuleggja eignasafn bankanna. Til greina kemur að breyta íbúðalánum yfir í verðtryggð krónulán.

Gengisbundin lán íslenskra heimila og fyrirtækja námu um eitt þúsund og sjö hundruð milljörðum króna þegar bankarnir hrundu síðasta haust. Frá þeim tíma hafa lánin hækkað verulega samfara veikingu krónunnar. Lán þessi eru nú metin sem gengistengd eign hjá nýju ríkisbönkunum.

Komi krónan til með að styrkjast rýrna þessar eignir og gríðarlegt gengistap myndast hjá bönkunum. Tapið gæti hlaupið á mörg hundruð milljörðum króna en til mæta því verða bankarnir að ganga á eigið fé.

Ólíklegt þykir að bankarnir ráði við slíkt áfall en til samanburðar má nefna að samkvæmt nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi fær ríkissjóður heimild til að veita ríkisbönkunum þremur allt að 385 milljarða króna í eigið fé á þessu ári. Því er veruleg hætta fyrir hendi bankarnir fari aftur í þrot ef ekkert verður að gert.

Sérstakur starfshópur á vegum hins opinbera, þar sem í sitja meðal annars fulltrúar frá Seðlabankanum og forsætisráðuneytinu, vinnur nú að því að þróa leiðir til að breyta þessum gengisbundu lánum yfir í annars konar eignarform. Niðurstöður liggja ekki fyrir en stefnt er að því að starfshópurinn ljúki störfum áður en bankarnir verða endurfjármagnaðir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu kemur meðal annars til greina að erlendum íbúðalánum verði breytt í hefðbundin verðtryggð krónulán. Lánin verða yfirtekin á því gengi sem var í gildi þegar þau voru tekin. Síðan verður verðtrygging reiknuð ofan á lánin til dagsins í dag. Þetta á að tryggja að jafnræðis sé gætt gagnvart þeim heimilum sem nú þegar hafa sín íbúðalán í íslenskum krónum.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×