Innlent

Ólafur væntir þess að lögreglumönnum verði fjölgað

Magnús Már Guðmundsson skrifar

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, væntir þess að lögreglumönnum í Reykjavík verði fjölgað. Fyrr í dag fundaði hann með Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, um löggæslumál.

,,Við viljum sjá aukna og sýnilega löggæslu að hálfu lögregluyfirvalda og það kom fram góður vilji frá ráðherra um það," segir Ólafur og bætir við að þrýsta verði á málefni lögreglurnar verði sett í meiri forgang og fjárlaganefnd Alþingis þurfi að taka málið upp.

Aðspurður hvort að aukinn sýnileiki felist í því að lögreglumönnum verði fjölgað sagði Ólafur; ,,Ég vænti þess en eins og ég segi telur ráðherra sig á þessu stigi málsins eiga erfitt með að fá aukinn mannafla en hann getur með skipulagsbreytingum styrkt þessa þjónustu."

Ólafur segir að meirihlutinn vilji efla öryggi í borginni og af því markmiði sé unnið að heilum hug. Í því samhengi nefnir Ólafur starf miðborgarþjónanna svokölluðu sem starfa í miðborginni um helgar. Að mati ólafs hafa þeir reynst afskaplega vel.

Sameiginleg niðurstaða fundar dóms- og kirkjumálaráðherra og borgarstjóra:

Dóms- og kirkjumálaráðherra og borgarastjóri eru sammála um mikilvægi öflugrar löggæslu. Ávinningur sé af skipulegu samstarfi lögreglu og borgaryfirvalda. Fagnaði ráðherrann því framtaki Reykjavíkurborgar að ráða sérstaka menn til að auka öryggisgæslu í miðborginni. Samstarf af þessu tagi ætti að þróa áfram í samvinnu lögreglu og sveitarfélaga. Í því sambandi var rætt um hverfagæslu til eftirlits með tilteknum svæðum, grunsamlegum eða óeðlilegum mannaferðum og hópasöfnun unglinga og miðlun upplýsinga um slíkt til lögreglu. Hverfagæsla kæmi hins vegar aldrei í stað öflugrar löggæslu í borginni. Var ákveðið, að hugað skyldi að gerð samkomulags lögreglu og Reykjavíkur um skipulegt samstarf um hverfagæslu. Það er sameiginlegt markmið ráðherra og borgarstjóra að tryggja sem best öryggi borgaranna með öflugri löggæslu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×