Innlent

VG vill leggja niður Varnarmálastofnun

Steingrímur og Katrín.
Steingrímur og Katrín.

Vinstri hreyfingin grænt framboð vill leggja niður Varnarmálastofnun og að verkefnum hennar verði sinnt í utanríkisráðuneytinu, Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og hjá Flugstoðum. Vinstri grænir telja að þetta gæti sparað allt að 700-800 milljónir króna strax á næsta ári. Þetta kemur fram í áherslum Vinstri grænna í skatta og ríkisfjármálum sem þau Steingrímur J. Sigfússon formaður flokksins og Katrín Jakobsdóttir varaformaður kynntu fyrir blaðamönnum í dag.



Vilja koma í veg fyrir niðurskurð í velferðarþjónustunni

Vinstri grænir segja að með því að kynna áherslur sínar vilji þau að sýnd verði ráðdeild í ríkisrekstri án þess að höggvið verði nærri velferðarþjónustunni. Vinstri grænir leggja jafnframt til að horfið verði frá skipulagsbreytingum í heilbrigðis- og tryggingamálum, hætt verði við stofnun Sjúkratryggingastofnunar og þess í stað verði starfsemi Tryggingastofnunar endurskipulögð með heildstæðum hætti. Telja Vinstri grænir að sparnaður af þessu gæti orðið 250 milljónir á næsta ári. Jafnframt að hætt verði við ýmsar fyrirhugaðar skipulags- og kerfisbreytingar sem muni að óbreyttu valda nokkrum kostnaði og auka álag starfsfólks á erfiðum tímum. Þá vilja Vinstri grænir að hætt verði við þátttöku á heimssýningu í Kína sem kosti um 100 milljónir króna.

Þá vilja Vinstri grænir breyta fyrirkomulagi á dagpeningargreiðslum ráðherra, þingmanna og embættismanna, þannig að í stað flestra dagpeningargreiðslna á ferðalögum kæmi endurgreiðsla kostnaðar með þaki. Loks vilja Vinstri grænir frekari sparnað í yfirstjórn ráðuneyta og opinberra stofnana.

Vilja 14% fjármagnstekjuskatt

Þá munu Vinstri grænir leggja fram þrjú frumvörp til breytinga í skattamálum sem öll miða bæði að því að afla ríkissjóði nokkurra viðbótartekna og innleiða meira réttlæti og sanngirni í skattkerfinu. Það eru, í fyrsta lagi frumvarp um þriggja þrepa álag á hærri laun, í öðru lagi frumvarp um hækkun fjármagnstekjuskatts í 14%. Í þriðja lagi frumvarp um að maður sem hafi 10 milljónir króna eða meira í árlegar fjármagnstekjur en enga eða óverulega launaða vinnu með höndum skuli reikna sér endurgjald eins og um hálft starf væri að ræða við fjármálaumsýslu fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Hafi maður 20 milljónir króna eða meira í árlegar fjármagnstekjur skuli hið reiknaða endurgjald miðast við fullt starf.















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×