Innlent

Ekki einu sinni skráður í Framsóknarflokkinn

Breki Logason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipulagshagfræðingur og fyrrverandi fréttamaður segir fólk héðan og þaðan af landinu hafa haft samband við sig að undanförnu. Mikið af því fólki virðist vilja fá hann til formennsku í Framsóknarflokknum. Sigmundur segir sérstakt að framsóknarmenn vilji hann sem formann þar sem hann sé ekki einu sinni skráður í flokkinn. Hann segist ekki vera á leiðinni í pólitík sem stendur.

„Já, það virðist vera mikill áhugi fyrir því svona héðan og þaðan. Ég veit nú eiginlega ekki hvernig það gerðist enda er ég ekkert í flokknum og hafði ekki hugsað mér að taka neinn þátt í pólitík," segir Sigmundur í samtali við Vísi.

Sigmundur segir að vissulega sé dálítið sérstakt að fólk héðan og þaðan af landinu hafi haft samband við sig vegna þessa.

Meðal annars hafði hópur fólks af Austurlandi samband við Sigmund sem hann hafði aldrei hitt áður. Hann fór hinsvegar Austur í síðustu viku og hitti þetta fólk. „Þau höfðu samband og voru að kanna áhuga minn á þessu. Ég sagði þeim að ég teldi þetta ekki raunhæft en það væri sjálfsagt mál að hitta hvern sem vildi ræða almennt um stöðu landsins og hvaða leiðir væru færar í því," segir Sigmundur.

Hann segir að á síðustu vikum hafi hann verið að beita sér í þeim málum sem snerta stöðu þjóðarinnar. En hann hefur meðal annars verið í forsvari fyrir Indefence hópinn.

„Ég hef sagt við þá sem telja mig hafa eitthvað fram að færa að það sé sjálfsagt mál að ræða málin, ég hef hinsvegar ekkert ákveðið hvort það sé ástæða til þess að endurskoða það hvort ég fari eitthvað út í pólitík."

Sigmundur nefnir að í umræðum um þessi mál hafi komið fram að hann hafi verið flokksbundinn Framsóknarmaður í mörg ár, það sé hinsvegar ekki rétt.

„Enda hefði það ekkert verið hægt þar sem fréttamenn á Rúv mega ekki vera í pólitík, þannig að það hefur ekki einu sinni verið um það að ræða."

Sigmundur þarf hinsvegar að hafa hraðar hendur ef honum snýst hugur. Landsfundur Framsóknarflokksins er núna í janúar, en þar verður kosinn nýr formaður flokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×