Innlent

Rangt haft eftir Þorgerði varðandi ESB

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir MYND/GVA

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins segist aldrei hafa sagt að Evrópusambandið væri okkar eini möguleiki líkt og norska dagblaðið Klassekampen heldur fram í dag. Þorgerður segist hafa farið í viðtal við blaðið fyrir 10 dögum og þar hafi hún sagt að við ættum að fara í aðildarviðræður. Hún stendur við þá skoðun sína.

„Ég sagði að við ættum að fara í aðildarviðræður og það væri hluti af okkar lausn í efnahagsmálunum. En að aðild að Evrópusambandinu væri okkar eini möguleiki sagði ég aldrei," segir Þorgerður í samtali við Vísi.

Hún segist hafa margendurtekið við blaðamanninn að við ættum að fara í viðræður og þar þyrftum við að gæta hagsmuna varðandi auðlindar okkar og þá sérstaklega sjávarútvegsmálin.

Þorgerður segist fagna þeirri miklu umræðu sem upp er sprottinn varðandi Evrópusambandið í Sjálfstæðisflokknum. „Menn eru að taka þátt í umræðunni í ríkari mæli og þessi fundur á föstudaginn var góður fyrir þá vinnu sem framundan er. En það er mikill munur á að Evrópusambandið sé okkar eini möguleiki eða að við eigum að fara í aðildarviðræður. Mín skoðun er að við eigum að láta á það reyna."

Þorgerður segist einnig hafa sagt að hún vonist til þess að landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykki að hefja aðildarviðræður. „Ég vonast til þess og tel það líklegra en hitt," segir Þorgerður að lokum.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×