Erlent

Kreppan má ekki koma í veg fyrir lausnir í loftslagsmálum

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ. MYND/AF
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ. MYND/AF MYND/AP

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir fjármálakreppuna í heiminum ekki mega koma í veg fyrir að mörkuð verði stefna í loftslagsmálum fyrir komandi kynslóðir. Tillögur að nýjum loftslagssamningi eru nú ræddar á fundi Sameinuðu þjóðanna.

Ráðherrar hundrað áttatíu og níu ríkja Sameinuðu þjóðanna eru nú í Poznan í Póllandi á loftslagsráðstefnunni þar. Á dagskrá er að koma sér saman um markmið um minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda sem verða síðan frekar rædd og bundin í samkomulag á fundi í Kaupmannahöfn á næsta ári.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir heiminn fylgjast með og næstu kynslóðir treysta á þá sem nú stjórni. Ekki megi gera mistök í þessu ferli.

,,Næsta kynslóð fylgist með okkur. Okkur má ekki mistakast," segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ.

Framkvæmdstjórinn leggur áherslu á að fjármálakreppan í heiminum megi ekki verða til að draga úr aðgerðum í loftslagsmálum. Margs konar kreppur séu að dynja yfir, á sviði efnahagsmála, í matvælaframleiðslu og umhverfismálum, taka verði á þeim öllum af festu.

Það sem helst er tekist á um á fundinum í Poznan er stofnun sjóðs sem ríkari þjóðir leggja fé í og veitt verður úr til þróunarríkjum sem verða illa úti vegna loftslagsbreytinga. Lagt er til að Alþjóðabankinn hafi umsjón með fénu en það hugnast þróunarríkjum illa og vilja að sérstök stofnun verði sett á laggirnar - stofnun sem komi betur til móts við þarfir þessara ríkja en Alþjóðabankinn.

Einnig er horft til leiðtoga Evrópusambandsríkja sem funda í Brussel í dag og á morgun. Þeir eiga eftir að semja um loftslags- og orkumálapakka en lagt hefur verið til að skera niður útblástur gróðurhúsalofttegunda um tuttugu prósent fyrir 2020 en um þrjátíu prósent takist alþjóðlegur samningur. Tekist verður á um þetta mál á leiðtogafundinum.

Einnig er gagnrýnt að George Bush, fráfrandi Bandaríkjaforseti, sitji fundinn í Poznan en ekki Barack Obama, verðandi forseti. Obama hafi jú markað sér stefnu í umhverfismálum og taki við stórveldinu í næsta mánuði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×