Fótbolti

Mijatovic staðfestir ráðningu Ramos

Fyrsta verkefni Ramos verður að stýra Real gegn Eiði Smára og félögum í Barcelona í El Clásico um helgina
Fyrsta verkefni Ramos verður að stýra Real gegn Eiði Smára og félögum í Barcelona í El Clásico um helgina NordicPhotos/GettyImages

Predrag Mijatovic framkvæmdastjóri Real Madrid hefur staðfest fréttir spænskra miðla eftir hádegið þar sem fram kom að Juande Ramos hefði verið fenginn til að taka við starfi Bernd Schuster þjálfara liðsins sem var rekinn í dag.

Real Madrid hefur ekki gengið vel í deildinni upp á síðkastið og þar hafa leikbönn og mikil meiðsli í herbúðum liðsins reyndar ekki hjálpað til.

Real er í fimmta sæti spænsku deildarinnar eftir 4-3 tap fyrir Sevilla á sunnudaginn og er níu stigum á eftir toppliði Barcelona.

Real og Barcelona mætast í El Clásico um næstu helgi og hafði Schuster þegar lýst því yfir að hans menn ættu litla möguleika á sigri - sem hefur eflaust ekki farið vel í stjórn Real.

"Barcelona er á rosalegu flugi núna. Ég held að þetta sé þeirra ár. Ég mun reyna að setja á svið sýningu fyrir áhorfendur, en ég er hræddur um að ég geti ekki gert mikið meira en það," sagði Þjóðverjinn á blaðamannafundi.

Juande Ramos kemur ekki á sérstöku flugi inn í sjóðheitan þjálfarastólinn hjá Real, því undir hans stjórn átti Tottenham verstu byrjun í sögu félagsins í haust.

Samningur Ramos við Real er aðeins til sex mánaða með möguleika á framlengingu í júní á næsta ári.

"Þetta er draumur allra þjálfara. Real Madrid getur unnið á hvaða velli sem er í heiminum," sagði Ramos á blaðamannafundi í dag.

 

Tottenham varð deildabikarmeistari undir hans stjórn í febrúar á þessu ári, en hafði síðan aðeins unnið 6 af 26 leikjum í öllum keppnum.

Ramos komst til metorða hjá Sevilla þar sem hann tók við árið 2005, en á þeim tveimur árum sem hann stýrði liðinu vann það fimm bikara - þar af Evrópubikar félagsliða tvö ár í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×