Innlent

Ríkisstjórnarflokkarnir halda velli í MR

Breki Logason skrifar
Menntaskólinn í Reykjavík
Menntaskólinn í Reykjavík

Ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag myndu tæp 70% nemenda við Menntaskólann í Reykjavík kjósa ríkisstjórnarflokkanna. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem gerð var á meðal nemenda skólans og birtist í nýjasta tölublaði Menntaskólatíðinda. Niðurstaðan kemur ritstjóranum á óvart.

„Þetta kemur mér nokkuð á óvart miðað við þá umræðu sem hefur verið í samfélaginu undanfarið. Sérstaklega sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn sé með mesta fylgið, ég hélt að MR væri meiri krataskóli," segir Egill Örn Gunnarsson ritstjóri Menntaskólatíðinda sem gefið er út í skólanum.

Nemendur úr þremur bekkjum í hverjum árgangi voru spurðir út í stuðning sinn við stjórnmálaflokka. Alls voru 230 nemendur sem tóku þátt eða 27% af öllum skólanum. Allir sem voru spurðir tóku afstöðu að sögn Egils.

Langflestir sem tóku þátt sögðu að enginn flokkur væri nógu góður, eða 96 nemendur. 58 nemendur sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn og 39 Vinstri græna. Samfylkingin fékk 33 atkvæði og Framsóknarflokkurinn 4. Enginn nemandi Menntaskólans í Reykjavík sagðist styðja Frjálslynda flokkinn.

„Við drógum þá ályktun að ef þetta væru alþingiskosningar þá myndu þessi 96 atkvæði vera ógild. Miðað við það eru Sjálfstæðisflokkur og Samfylking með 68% atkvæða. Það má síðan velta fyrir sér hvert þessi ógildu atkvæði hefðu síðan farið," segir Egill.

Egill segist finna fyrir miklum áhuga á stjórnmálum í skólanum og sú staðreynd að 41,7% nemenda telji engann flokk á Alþingi nógu góðan sé í raun sláandi.

„Það er mikill áhugi hérna myndi ég segja. Það líður varla það hádegi að ekki sé rætt um mótmælin eða fréttirnar úr fréttatímanum kvöldið áður. Ég tel því að MR-ingar séu mjög pólitískir," segir Egill Örn að lokum.

Hér er hægt að skoða nýjasta tölublað Menntaskólatíðinda





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×