Viðskipti erlent

Seðlabankinn afnemur hömlur á útflæði gjaldeyris

Tilmæli Seðlabanka Íslands frá því snemma í október um tímbundna temprun á útflæði gjaldeyris eru afturkölluð. Þau voru kynnt til sögunnar eftir að þrír bankar komust í þrot og mikla markaðsröskun sem því fylgdi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar segir að í kjölfar þessa hóf Seðlabankinn viðskipti með gjaldeyri úr gjaldeyrisforða sínum með daglegum uppboðum til að liðka fyrir gjaldeyrisviðskiptum sem gengu stirðlega, m.a. vegna þrenginga í greiðslumiðlun.

Afnám tilmælanna þýðir að engar hömlur eru lengur á gjaldeyrisviðskiptum sem tengjast inn- og útflutningi vöru og þjónustu né vöxtum, verðbótum og afborgunum af lánum.

Í síðustu viku staðfesti framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lánssamning við íslensk stjórnvöld. Í honum felst m.a. að áfram verði hömlur á fjármagnsflutningum á milli Íslands og annarra landa. Þeim verður aflétt um leið og viðunandi stöðugleiki næst á gjaldeyrismarkaði.

Alþingi hefur staðfest frumvarp viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um gjaldeyrismál frá 1992. Í þeim er Seðlabankanum heimilað, að höfðu samþykki viðskiptaráðherra, að setja reglur um takmarkanir á fjármagnsflutningum á milli landa. Þessi heimild hefur nú verið nýtt og mun Seðlabankinn birta reglur um gjaldeyrismál á grundvelli laganna á heimasíðu sinni. Reglurnar verða endurskoðaðar fyrir 1. mars 2009.

Tilgangurinn með reglunum er að takmarka um sinn útflæði gjaldeyris sem gæti haft neikvæð áhrif á endurreisn stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Í reglunum felst m.a. að þeim sem eignast erlendan gjaldeyri er skylt að skila honum til innlendra fjármálafyrirtækja þótt heimilt verði að leggja hann inn á innlánsreikning í erlendri mynt. Takmarkanir eru settar á fjármagnshreyfingar aðila sem hyggjast skipta íslenskum krónum í erlendan gjaldeyri.

Ítrekað skal að engar hömlur eru lengur á gjaldeyrisviðskiptum sem tengjast inn- og útflutningi vöru og þjónustu. Hömlunum sem beitt er nú, á grundvelli nýsettra laga ná til gjaldeyrisviðskipta sem tengjast fjármagnsflutningum á milli Íslands og annarra landa. Þær eru nauðsynlegur hluti ráðstafana sem miða að því að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Þær verða afnumdar svo fljótt sem aðstæður leyfa.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×