Innlent

Frumvarp til að greiða fyrir bílasölu úr landi lagt fram á Alþingi

Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum og lögum um virðisaukaskatt. Með frumvarpinu er lagt til að heimilað verði fram í apríl á næsta ári að endurgreiða virðisaukaskatt og vörugjald af notuðum ökutækjum sem flutt eru úr landi.

Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að verulegur fjöldi ónotaðra ökutækja sé í landinu og með frumvarpinu sé ætlunin að greiða fyrir sölu þeirra úr landi. Það muni auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til skemmri tíma, jafnframt því að ýta undir það að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný. Auk þess megi reikna með að frumvarpið flýti fyrir fjölgun vistvænna ökutækja í umferðinni.

„Endurgreiðslan tekur mið af þeirri fjárhæð sem greidd var í vörugjöld og virðisaukaskatt þegar ökutækið var flutt inn að teknu tilliti til aldurs þess. „Þannig lækkar viðmiðunarfjárhæð endurgreiðslu um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð, fyrstu 12 mánuðina eftir skráningu ökutækisins, og 1,5% fyrir hvern mánuð eftir það. Samkvæmt frumvarpinu hafa eigendur ökutækja sem notið hafa innskattsréttar af ökutækjum sínum ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í frumvarpinu er einnig lagt til að tollstjórum verði veitt heimild til gjaldtöku vegna eftirlits með ökutækjum sem flutt eru úr landi, en tollstjórinn í Reykjavík mun annast endurgreiðslurnar," segir í greinargerðinni.

Enn fremur kemur fram að breytingin muni kosta ríkissjóð á bilinu 1,5-2 milljarða í endurgreiðslur en á móti vega óbein áhrif aukinnar veltu og veltuskatta af þeim gjaldeyri sem fæst fyrir bifreiðaútflutninginn. Áætlað er að allt að 5.000 bifreiðar verði fluttar úr landi á næstu mánuðum og reiknar fjármálaráðuneytið með að tíu milljarðar fáist fyrir þá.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×