Viðskipti innlent

Steingrímur vildi fara í leyniferð til Noregs að leita að láni

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG bauð Geir Haarde forsætisráðherra upp á það í byrjun október að fara í leyniferð til Noregs að leita hófanna um lán til Íslands. Þetta kemur fram í umfjöllun Austurgluggans um stjórnmálafund sem Steingrímur hélt á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Fram kemur í umfjöllun Austurgluggans að Steingrímur vildi strax í byrjun október reyna að fá bráðabirgða- eða neyðargjaldeyrislán inn í landið. Hann segir þá hafa verið opna möguleika sem smám saman lokuðust þegar mál lentu í farvegi að láni hjá IMF.

,,Ég bauð Geir Haarde að fara fyrir leynilegri sendinefnd til Noregs 8. október ef hann sendi með mér einn seðlabankastjóra, þó ekki Davíð Oddsson, og ráðuneytisstjórann í fjármálaráðuneytinu, til að reyna að landa láni frá Noregi," segir Steingrímur "Ég var búinn að tala á hverjum einasta degi við fjármálaráðherra Noregs, sem ég þekki mjög vel og ég trúi enn að það hefði verið hægt. En þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðspakkinn kom á borðið og deilurnar við Breta fóru að vefja upp á sig lokuðust mátt og smátt þessar leiðir."

Steingrímur segir að mögulegt hefði verið að fá lán hjá Rússum og Kínverjum. Menn hafi sett þá hluti til hliðar og allt sitt traust á IMF, sem að hans viti sé mjög hættulegt. Nú sé ýmislegt að koma í ljós varðandi það sem mönnum lítist ekki vel á og vont að vera úti í horni og eiga bara eitt úrræði eftir.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×