Innlent

Vilja hámarkslaun að upphæð 1 milljón króna

Hópurinn skorar meðal annars á alþingismenn að beita sér í launamálum.
Hópurinn skorar meðal annars á alþingismenn að beita sér í launamálum.

Alþingi, ríkisstjórn og allir einkaaðilar í rekstri þurfa að sjá til þess að enginn hafi hærri laun en eina milljón króna á mánuði. Þetta segir í opnu bréfi nokkurra Dýrfirðinga til Alþingis, ríkisstjórnar og atvinnurekenda.

„Þá beinum við þeim eindregnu tilmælum til ykkar að byrja ekki á skúringakonunum, færibandafólinu, öskuköllunum og þeim öðrum sem minnst mega sín í þjóðfélaginu þegar þið endurskoðið laun starfsfólks. Lækkið fyrst launin hjá þeim sem mest hafa.," segir ennfremur í bréfinu. Hópurinn segist telja að þarna sé um algjöra nauðsyn að ræða eins og málum hátti hjá þjóðinni í dag. Jafnframt er varað við of miklum erlendum lántökum, svo íslenska þjóðin fari ekki úr öskunni í eldinn.

„Þetta er sundlaugahópurinn sem hittist á hverjum morgni, þetta er svona svipað og Veðurklúbburinn á Dalvík," segir Hallgrímur Sveinsson, einn þeirra sem stóð að bréfinu, aðspurður um það hverjir standi að baki því. Hann segir bréfið komi frá hópi fólks sem samanstandi af ýmsum borgurum í Dýrafirði. „Fólki finnst of langt gengið með þessi háu ofurlaun sem voru náttúrulega allt of há," segir Hallgrímur. Hann segir að fréttir af launum bankastjóra ríkisbankanna þriggja hafi síðan gert útslagið. Hallgrímur telur að þessi krafa um hámarkslaun sé sjálfsögð miðað við efnahagsástandið.

Hallgrímur segir að hópurinn hafi ekki enn rætt málið við vestfirska þingmenn en þeir eigi að sjálfsögðu eftir að fá bréfið í hendurnar og svo sé bara að vonast til þess að þeir taki málið upp.















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×