Innlent

Þorgerður útilokar ekki að RÚV fari af auglýsingamarkaði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

„Ég má ekki til þess hugsa ef það yrði bara einn miðill sem yrði ríkismiðill," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að skipa þriggja manna starfshóp til að fjalla um þá stöðu sem íslenskir fjölmiðlar eru komnir í. Allir eru þeir mjög skuldsettir og hafa Árvakur, 365 og Skjárinn öll sagt upp starfsfólki í dag og í gær.

Þorgerður bendir á að hún hafi ákveðið að leggja fram fjölmiðlafrumvarp á grunni Evróputilskipanna sem fyrst og fremst byggði á réttindi neytenda. Hún hefði svo ákveðið síðar í vetur að skoða þyrfti stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og að hún bíði eftir niðurstöðu Samkeppnisstofnunar vegna þess máls.

Þorgerður segir að sér hugnist það ekki að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Hins vegar vilji hún, í ljósi þeirra breytinga sem séu að verða á efnahagsástandinu, ekki útiloka neina möguleika. Aðalmálið sé að menn hafi frjálsar hendur í nýskipuðum starfshópi og komi með tillögur til að stuðla að samkeppni á fjölmiðlamarkaði, þannig að fjölbreytni geti þrifist á fjölmiðlamarkaði.

Þorgerður tekur fram að hlutdeild RÚV á auglýsingamarkaði hafi ekki aukist og sé um 1/3. Vandræði Skjás eins séu hins vegar komin til vegna samdráttar á auglýsingamarkaði og að kostnaður vegna kaupa á sjónvarpsefni hafi aukist vegna gengisbreytinga. Hjá 365 hafi áskriftir gengið vel en annað komi til kastanna svo sem tilraunir með NFS, tilraunir með rekstur Nyhedsavisen og tilraunir með rekstur Wyndeham prentsmiðjunnar í Bretlandi.

Þorgerður segir mikilvægt að gera það sem hægt sé til þess að halda einkareknum fjölmiðlum gangandi og það eigi jafnframt við um prentmiðlana þar sem orðið hafi vart við aukna einsleitni á eignarhaldi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×