Innlent

ESB trúðboð í boði ríkisins

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Bjarni Harðarson segir að ríkisbankinn Nýi Glitnir boði skoðun sem gengur þvert gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Greiningadeild Glitnis velti þeirri spurningu upp í morgun hvort að fjármálakreppan muni leiða til þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. ,,Áhrifin af aðild að ESB og upptöku evrunnar yrðu víðtæk hér á landi. Ekki þyrfti að bíða eftir aðildinni sjálfri eftir þeim. Á grundvelli væntinga myndu markaðir bregðast skjótt við," segir í greiningu Glitnis.

,,Ég gerði ekki athugasemdir við það á meðan að Jón Ásgeir var aðaleigandi þessa banka en þá gat hann rekið þær áróðursdeildir sem hann vildi. Aftur á móti geri ég athugasemdir við það að ríkið skuli reka sömu áróðursdeild með sömu starfsmönnum sem telja sig greinilega enn vera í krossferð," segir Bjarni Harðarson.

Bjarni segir að útrásarvíkingar hafi plantað trúboðum ESB-aðildar inn í allar greiningardeildir og fjölmiðla landsins. Aðspurður hvort það séu ekki stór orð segir Bjarni svo vera en hann geti auðveldlega fært rök fyrir þeim. Bjarni nefnir sem dæmi viðfangsefni, viðmælendur og ritstjórnardálka Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. Einnig nefnir hann sjónvarpsþáttinn Markaðinn máli sínu til stuðnings.

,,Þarna hafa menn verið handvaldir í tilliti til þess að þeir hafi skoðanir líkri þeirri sýn sem útrásarvíkingarnir kepptust við að mata þjóðina á," segir Bjarni.

Bjarni segir að það sé ekki undarlegt að það skuli vera stuðningur í skoðanakönnunum við það sem fjölmiðlaveldi landsmanna hafi keppst við að boða.

,,Innan þessara miðla er því ítrekað haldið fram að fylgi við Evrópusambandsaðild sé mun meiri en raunverulegar tölur gefa til kynna," segir Bjarni og bætir við að hann hafi vakið athygli á því í viðtölum við þessa miðla að stuðningur við Evrópusambandsaðild sé heldur minni en hann var árið 2001. ,,En ég hef ekki fengið þá fullyrðingu mína birta. Hún hefur verið ritskoðuð."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×