Innlent

Aðalhagfræðingar Seðlabankans komu ekki að ákvörðun um Glitni

Arnór Sighvatsson er aðalhagfræðingur Seðlabankans en Þórarinn G. Pétursson er staðgengill hans.
Arnór Sighvatsson er aðalhagfræðingur Seðlabankans en Þórarinn G. Pétursson er staðgengill hans.

Hvorki aðalhagfræðingur Seðlabankans né staðgengill hans tóku þátt í að meta þjóðhagsleg áhrif þjóðnýtingar Glitnis eða áhrif hennar á fjármálakerfið.

Samkvæmt heimildum var málið í höndum bankastjórnar Seðlabankans og koma nöfn starfsmanna hagfræðisviðs bankans ekki fyrir á minnisblöðum um afleiðingar þjóðnýtingarinnar.

Heimildarmaður innan stjórnarráðsins bendir á að málið sé á ábyrgð forsætisráðuneytisins. Þegar spurt var hvort nöfn hagfræðinga seðlbankans kæmu fyrir á minnisblöðum um þjóðhagsleg áhrif og áhrif á fjármálakerfið, sagði heimildarmaðurinn að margir hagfræðingar hefðu komið að málinu. Hann vildi hins vegar ekkert segja um það hverjir það hefu verið. „Þú verður að spyrja Seðlabankann," sagði hann.

Tveir bankastjórar Seðlabankans, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson eru hagfræðingar. Geir H. Haarde, forsætisráðherra er hagfræðingur og líka Tryggvi Þór Herbertsson, efnahgasráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Sama á við Bolla Þór Bollason, ráðuneytisstjóra í forsætisráðueytinu.

Starfsmenn Seðlabankans sátu í hádeginu fund sem bankastjórnin boðaði óvænt til. Þar fór Davíð Oddsson yfir þær opinberu upplýsingar sem fyrir liggja um Glitnismálið. Etir því sem komist verður næst, hnykkti hann á því að ákvarðanir hefðu verið teknar af ríkisstjórninni en ekki Seðlabankanum.

Hlutirnir gerðust hratt eftir að forsvarsmenn Glitnis leituðu til Seðlabankans um fyrirgreiðslu fyrir helgi. Þeir óskuðu 600 milljóna evru láns, en innan við viku síðar hafði ríkið eignast 75 prósenta hlut í bankanum. Þá höfðu fundir staðið um nætur.

Síðan tíðindi bárust um þjóðnýtinguna, á mánudagsmorgun, hefur gengi krónunnar lækkað um 15 prósent.

Lánshæfismat ríkisins og allra banka hefur verið lækkað, raunar hefur Moody's ekki lækkað lánshæfiseinkunn ríkisins, en íhugar að lækka hana.

Þá hefur skuldartryggingaálag ríkisins rokið upp. Hafa má í huga að alls óvíst er um stöðuna til lengri tíma litið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×