Erlent

Bandaríkjamenn texta meira en þeir tala

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Farsímanotendur í Bandaríkjunum hafa nú náð þeirri stöðu að nota SMS-skilaboð meira en þeir tala í símann.

Eftir annan fjórðung þessa árs liggur það fyrir að farsímanotendur vestanhafs sendu og móttóku að meðaltali 357 smáskilaboð á mánuði en símtölin sem fóru um síma þeirra, inn og út, voru 204. Þetta er myndarleg aukning í notkun SMS-skilaboða síðan á sama ársfjórðungi 2006 en þá voru þau að meðaltali 65 á mánuði. Aukningin nemur 450 prósentum en það er þó langt í frá á kostnað símtalanna því fjöldi þeirra hefur staðið nokkurn veginn í stað þessi tvö ár.

Í júnímánuði á þessu ári sendu bandarískir farsímaeigendur hvorki meira né minna en 75 milljarða SMS-skilaboða sem eru að meðaltali tveir og hálfur milljarður dag hvern. Það er aukning um 160 prósent síðan á sama tíma árið áður. SMS-skilaboðin öðluðust fyrst vinsældir í Asíu og Evrópu vegna þess að víða í þessum álfum voru þau mun ódýrari kostur en símtöl. Dýr millilandasímtöl vegna reikisamninga evrópskra símafyrirtækja ýttu undir þessa þróun þar sem ódýrara er að senda SMS milli landa en hringja.

Bandarísku símafyrirtækin eru nú tekin að bjóða upp á sérstaka SMS-áskrift þar sem notandinn getur sent ótakmarkaðan fjölda skeyta fyrir fast gjald sem nemur 1.800 krónum á mánuði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×