Handbolti

Ísland í þriðja skiptið í undanúrslit á stórmóti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson í leiknum gegn Pólverjum í morgun.
Ólafur Stefánsson í leiknum gegn Pólverjum í morgun. Mynd/Vilhelm

Ísland tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum á stórmóti í handbolta í þriðja skiptið í sögunni - og í annað skiptið á Ólympíuleikum. Ísland lagði Pólland í fjórðungsúrslitum í morgun, 32-30.

Í bæði skiptin hefur Ísland tapað sínum viðureignum í undanúrslitum sem og leiknum um þriðja sætið. Ísland hefur því aldrei unnið til verðlauna á stórmóti í handbolta.

Árið 1992 komst Ísland í undanúrslit á Ólympíuleikunum í Barcelona og mætti þar Samveldinu, fyrrum Sovétríkjunum. Samveldið vann, 23-19, og urðu síðar Ólympíumeistarar eftir sigur á Svíum í úrslitaleik.

Tíu árum síðar, 2002, mætti Ísland Svíum í undanúrslitum á EM í Svíþjóð. Heimamenn rústuðu íslenska landsliðið, 33-22, og unnu svo Þjóðverja í úrslitum á umdeildu marki.

Bæði liðin sem Ísland hefur mætt í undanúrslitum stórmóta hafa því orðið meistarar í kjölfarið.

Þess má reyndar geta að Ísland vann fræga B-heimsmeistarakeppni í handbolta árið 1989 eftir sigur á Pólverjum í úrslitum, 29-26.

Það er einnig athyglisverð staðreynd að tvívegis hafa verið gerðar miklar væntingar til íslenska landsliðsins fyrir Ólympíuleika. Annars vegar 1988 í Suður-Kóreu og hins vegar 2004 í Grikklandi.

Bæði skiptið náði íslenska landsliðið ekki að standa undir þeim væntingum en á næstu leikum á eftir (1992 og 2008) komst liðið í undanúrslit.

Þar sannast hið forkveðna - íslensk lið standa sig best þegar fæstir eiga von á því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×