Innlent

Segir samstarf við Ólaf ekki mistök

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir samstarf flokksins í borginni við Ólaf F. Magnússon ekki mistök. Honum er ekki kunnugt um þreifingar manna um myndun nýs meirihluta.

Staða Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra veikist nú með hverjum deginum sem líður. Fréttablaðið greinir frá því í dag að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eigi í óformlegum viðræðum og samkvæmt heimildum fréttastofu voru þreifingar í gangi milli flokkanna í morgun en þær eru enn sem komið er á byrjunarstigi.

Ekki hefur náðst í oddvita borgarstjórnarflokkanna í dag en Dagur B. Eggertsson sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að mikil samstaða væri meðal minnihlutans. Hann treysti sér þó ekki til að spá fyrir um framhaldið en sagði að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn örvæntingafullur vegna lélegrar útkomu í skoðanakönnunum og útspil þeirra nú væri að skrifa nýjan fréttafarsa. Aðspurður segist hann ekki vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum í borginni og að ólíkt Sjálfstæðismönnum væri Samfylkingarfólk ekki að fara á taugum.

Kannast ekki við þreifingar

Geir H. Haarde forsætisráðherra vill ekki kannast við þreifingar í borgarmálunum og segist treysta oddvita flokksins fyrir þessum málum. Aðspurður um það hvort þreifingar væru á milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna sagði Geir: „Það mál er auðvitað á vettvangi borgarfulltrúanna undir forystu Hönnu Birnu og ég get ekki svarað þér þessari spurningu," sagði Geir við fréttamann Stöðvar 2.

Spurður hvort hann og Hanna Birna hafi rætt málið svaraði Geir því til að þau ræddust við reglulega. Þá var hann inntur eftir því hvort hann sem formaður ætti ekki að vita ef slíkar þreifingar ættu sér stað og þá svaraði Geir: „Mér er ekki kunnugt um neinar beinar þreifingar í þessu máli."

Geir sagði aðspurður að staða flokksins í borginni samkvæmt skoðanakönnunum væri óviðunandi og borgarfulltrúarnir gerðu sér grein fyrir því. „Ég er alveg viss um að Hanna Birna og hennar samstarfsmenn munu rífa upp þetta fylgi áður en mjög langt um líður," segir Geir.

Forsætisráðherra telur ekki að samstarf sjálfstæðismanna við Ólaf F. Magnússon hafi verið mistök og hann viti ekki betur en að það samstarf hafi í aðalatriðum gengið vel og gangi vel.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×