Innlent

Frændi Paul Ramses segir hann ljúga

Fullyrðingar Paul Ramses um að líf hans sé hættu verði honum gert að snúa aftur til Kenía eru ekki sannar að sögn ættingja Pauls sem búsettir eru á Íslandi. Þeir vilja engu að síður að hann fái hæli á Íslandi til að fjölskyldan geti sameinast.

Lydia Björnsson og Paul Ramses eru systkinabörn en Lydia hefur verið búsett hér á landi ásamt syni sínum Samúel í rúman áratug. Hér á landi býr einnig frændi Pauls - Robert Sewe.

Robert sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að Paul frænda sinn hefði búið til þær sögur að hann væri í hættu í Kenýa til að fá hæli hér á landi.

Af hverju ætti hann að búa til slíka sögu?

"Ég veit það ekki. Þetta er bara eitthvað sem hann bjó til, kannski til að geta sótt um pólitískt hæli. Ég held hann ætti bara að sækja um venjulegt dvalarleyfi til að geta búið hér."

Lydia, frænka Paul, segir ástandið í Kenýa ekki jafn slæmt og Paul láti það líta út fyrir að vera.

"Ég á bróður, frænku og frænda þarna. Ég hringdi í bróðir Paul í gær eða í fyrradag og hann sagði allt vera í lagi."

Þau segja Paul hafa sýnt lítinn áhuga á samskiptum við ættingja sína hér á landi. Þau vonist samt til þess að hann fái lausn sinna mála.

"Ég vona innilega að hann verði sendur hingað því ég vil fá hann hingað ég vil að fjölskylda mín verði saman hér á Íslandi," sagði hún.



















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×