Viðskipti innlent

Ekki lengur Ásgeir í Tölvulistanum

Breki Logason skrifar
Ásgeir Bjarnason ætlar að lækka forgjöfina í sumar.
Ásgeir Bjarnason ætlar að lækka forgjöfina í sumar.

Ásgeir Bjarnason gjarnan kenndur við Tölvulistann segist ætla að lækka forgjöfina í sumar og hefur ekki ákveðið hvað hann tekur sér fyrir hendur næst. Líkt og Markaðurinn greindi frá í morgun seldi Ásgeir Tölvulistann til fyrirtækisins IOD. Ásgeir ætlar að taka því rólega í góða veðrinu.

„Ég var nú bara alltaf Ásgeir og þetta með Tölvulistann var bara hugmynd sem kom upp fyrir tveimur árum síðan og gekk vel," segir Ásgeir sem varð landsþekktur fyrir útvarpsauglýsingar Tölvulistans.

„Hæ, Ásgeir í Tölvulistanum hér," er eitthvað sem fólk á eftir að sakna úr útvarpinu nú þegar Ásgeir er hættur.

„Núna er maður bara í góða veðrinu að lækka forgjöfina, það hefur staðið til lengi. Síðan finn ég mér bara eitthvað að gera þegar það fer að rigna."

Segja má að Ásgeir hafi komið með nýja vídd inn á íslenska auglýsingamarkað þegar rödd hans fór að hljóma í útvarpinu. Ásgeir vill þó lítið gera úr hugmyndinni sem hann segir ekki vera nýja.

„Ég lærði í Danmörku og þar er ágætur maður sem heitir Lars Larsson eigandi Rúmfatalagersins, hann gerir þetta. Við ákváðum að prófa þetta og það gekk mjög vel."

En má eiga von á Ásgeiri aftur í útvarpsauglýsingarnar, og þá á nýjum vettvangi?

„Hvar Ásgeir verður og hvort það verði nýjar útvarpsauglýsingar veit ég ekki. Ég er ekkert að drífa mig, tek því bara rólega í sumar."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×