Viðskipti innlent

Segir orðróm um stjórnarslit á Íslandi vegna efnahagsástands

Robert Wade hélt erindi um fjármálakreppuna við HÍ í júní.
Robert Wade hélt erindi um fjármálakreppuna við HÍ í júní. MYND/Valli

Íslandsvinurinn Robert Wade, prófessor við London School of Economics, segir sterkan orðróm á Íslandi um stjórnarslit og segir Íslendinga nú gjalda óhófs síðustu ára.

Wade ritar grein sem birtist á vef breska fjármálablaðsins Financial Times í kvöld. Þar fer hann yfir ástandið á Íslandi. Hann bendir á að frá því að undirmálslánakreppan hafi skollið á hafi íslenskt efnahagslíf verið á niðurleið. Landsframleiðsla hafi minnkað um fjögur prósent á fyrsta árfsfjórðungi í samanburði við ársfjórðunginn þar á undan og þá hafi bæði hlutabréfamarkaðurinn og gengi krónunnar fallið um þriðjung frá upphafi árs.

Hann bendir á mikinn viðskiptahalla síðustu tvö ár og að skammstímaskuldir hafi verið 15 sinnum meiri en gjaldeyrisforði Seðlabankans í lok síðasta árs og tvöfalt meiri en landsframleiðslan. Þá hafi eignir bankanna verið tíu sinnum meiri en landsframleiðsla í lok síðasta árs, meðal annars vegna kaupa á fyrirtækjum í Danmörku og Bretlandi.

Wade rekur þennan mikla halla til einkavæðingar bankanna um síðustu aldamót en það ferli hafi tekið fljótt af. Bönkunum hafi verið komið í hendur aðila tengdum ríkisstjórnarflokkunum á þeim tíma, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, sem hafi haft takmarkaða reynslu í nútímabankaviðskiptum. Bankarnir hafi hagað sér eins og vogunarsjóðir í framhaldinu og stækkað með því að taka lán erlendis.

Þá er bent á að frá aldamótum hafi fyrirtæki og heimili tekið lán eins og þau þurfi engar áhyggjur að hafa af morgundeginum en nú fáist hvergi lán og nú sé að vindast ofan af ástandinu.

Wade, sem kom nýverið til landsins og hélt fyrirlestur við Háskóla Íslands, fullyrðir enn fremur að ríkisstjórnin sé í vandræðum og að orðrómur sé um að Samfylkingin hyggist hugsanlega slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og að blásið verði til nýrra kosninga. Skoðanakannanir bendi til þess að Sjálfstæðisflokkurinn myndi gjalda dýru verði fyrir ástandið og að Samfylkingin gæti myndað nýja ríkisstjórn einum af minni flokkunum.

 

Það gæti þýtt breytingar á efnahagslífi Íslands þar sem horft væri meira til norræna módelsins þar sem fjármálalífið stjórnaði ekki öllu og þar sem ójafnvægi í þjóðarbúskaonum yrði tekið alvarlega.

Grein Wade má nálgast hér.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×