Innlent

Gruna starfsfólk Cabin um þjófnað

Andri Ólafsson skrifar

Forsvarsmenn KFÍ á Ísafirði eru æfir út í starfsfólk Cabin hótels í Reykjavík eftir að þjálfari meistaraflokks félagsins, Borce Ilievski, var rændur þegar hann var gestur á hótelinu um þar síðustu helgi. Borce fær tjón sitt, sem metið er á um 300 þúsund krónur, ekki bætt hjá hótelinu en taskan hans fannst inn á öðru herbergi hótelsins skömmu eftir ránið.

Forsvarsmenn KFÍ gruna starfsfólk Cabin um græsku, jafnvel um að eiga þátt í ráninu og vilja fá tjón þjálfara síns bætt.

Hótelstjórinn á Cabin, Jóna Scheving, vísar því algjörlega á bug.

"Okkur þykir það afar leitt að þetta skuli hafa komið fyrir en ég vísa því algjörlega á bug að starfsfólk okkar hafi átt hluta að máli. Enda bendir ekkert til þess," segir Jóna. Hún bætir því við að allt bendi til þess að þjófur hafi farið inn í nokkur herbergi í gegn um glugga sem stóð opinn.

Starfsfólkið hafi ráðfært sig við tryggingafyrirtæki sem hafi á móti gefið þær upplýsingar að hótelið væri ekki skaðabótaskylt gagnvart þjálfaranum.

Ingólfur Þorleifsson, varabæjarfulltrúi á Ísafirði og formaður KFÍ, gefur ekki mikið fyrir það. Hann segir að starfsfólk Cabin hefði átt að sýna þá kurteisi að greiða manninum það tjón sem hann hlaut. Það sé spurning um mannasiði.

Ingólfur hefur skrifað harðorð bloggfærslu um málið en hana má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×