Innlent

Vill leggja niður embætti Ríkislögreglustjóra í núverandi mynd

Lúðvík Bergvinsson.
Lúðvík Bergvinsson. MYND/GVA

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, telur að leggja eigi niður embætti Ríkislögreglustjóra í þeirri mynd sem það er núna og leggja aukna fjármuni í grenndarlöggæslu. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu um stöðu tollgæslu og lögreglumála á Suðurnesjum.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, var upphafsmaður umræðunnar og benti á þær breytingar sem ríkisstjórnin hygðist gera á embættinu á Suðurnesjum. Skilja ætti að lögreglu og toll og það gengi þvert á skipan tollamála á landinu. Með breytingum á tolli og löggæslu í fyrra hefðu orðið til átta embætti og í sjö þeirra væri tollgæsla rekin með lögreglu. Aðeins í Reykjavík væri lögregla og tollur aðskilin.

Sagði Siv fjárhagslegt og stjórnsýslegt óhagræði af breytingunum að mati starfsmanna og benti á að þingflokkur Samfylkingarinnar væri andvígur breytingunum. Spurði hún ráðherra meðal annars hver rökin væru fyrir breytingunum og fjárhagslegur ávinningur þeirra.

Embættið gat ekki haldið sér innan fjárhagsramma

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra benti á að ljóst hefði verið í febrúar að lögregluembættið á Suðurnesjum hefði ekki getað haldið sig innan fjárhagsramma ársins og upp á vantaði um 200 milljónir. Það hefði komið ráðuneytinu á óvart og því hefði verið farið yfir málið og umræddar breytingar lagðar til. Það þyrfti að leið embættið út úr árlegum fjárhagslegum halla og því ætti hvert ráðuneyti að bera stjórnsýslulega og fjárhagslega ábyrgð á sínum málum, en tollamál heyra undir fjármálaráðuneytið.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði árangur lögregluembættisins á Suðurnesjum vera einstaklega góðan og mikilvægt væri að breytingar væru vandlega undirbúnar áður en ráðist væri í þær. Þá sagði hann afstöðu þingflokks Samfylkingarinnar ekki hafa breyst, en hann er á móti aðskilnaði tolls og lögreglu.

Sagði Lúðvík að það væri sitt mat menn hefðu misst embætti Ríkislögreglustjóra langt umfram það sem til hefði verið stofnað og því teldi hann að leggja ætti niður embættið í þeirri mynd sem það væri núna. Ríkislögreglustjóri hefði átt að vera samræmingarmiðstöð samkvæmt upphaflegum hugmyndum. Benti hann á að Danir væru að hverfa frá hugmyndinni um miðlæga löggæslu og staðreyndin væri sú að fólk vildi grenndarlöggjöf. Þá sagði hann fjárveitingar til lögreglunnar á Suðurnesjum ekki hafa fylgt verkefnum og úr því þyrfti þingið að bæta.

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri - grænna, tók í svipaðan streng og sagði fjárframlög til löggæslu og grenndargæslu hafa staðið í stað á meðan embætti Ríkislögreglustjóra hefði þanist út. Það lægi fyrir að verkefni lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum hefðu margfaldast og nöturlegt væri að frétta að lögreglumönnum hefði fækkað þar um 18 frá því að embætti hefðu verið sameinuð í fyrra. Verið væri að eyðileggja nýlegar og afar vel heppnaðar aðgerðir á Suðurnesjum með aðskilnaðinum.

Tekur dómsmálaráðherra á ippon

Siv Friðleifsdóttir kom aftur í pontu og gagnrýndi ráðherra fyrir að ráðast að embætti Ríkislögreglustjóra. Hún sagði að svo hefði þingflokksformaður Samfylkingarinnar komið og gefið dómsmálaráðherra á lúðurinn með yfirlýsingu sinni. „Þetta er bara ippon hjá talsmanni Samfylkingarinnar," sagði Siv og vísaði til fullnarðarsigurs í júdó.

Björn Bjarnason sagði að það hefði komið sér á óvart að menn hefðu farið að ræða Ríkislögreglustjóra en hann viki sér ekki undan því og menn gætu rætt það sérstaklega síðar. Hann sagði það alrangt að verkefni hefðu verið flutt frá embættinu á Suðurnesjum til Ríkislögreglustjóra. Sérsveitin hefði verið skipulögð undir Ríkislögreglustjóra og það væri eina breytingin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×