Innlent

Hlýnun fækkar bleikju í Elliðavatni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bleikja.
Bleikja. MYND/Stefán Jón Hafstein

Fækkun bleikju í Elliðavatni er umræðuefni Haralds R. Ingvasonar, sérfræðings á Náttúrufræðistofu Kópavogs, í fyrirlestri hans í dag á svokölluðum Kópavogsdögum. Greinir Haraldur þar frá niðurstöðum ýmissa rannsókna er tengjast vatnabúskap Elliðavatns, þ. á m. áhrifum hlýnunar vatnsins á bleikjustofninn.

„Í mjög grófum dráttum verður farið þarna yfir ýmsa vatnafræðilega þætti, vatnshita og ýmislegt sem tengist honum. Það hefur nefnilega komið í ljós síðustu ár að vatnshitinn er á uppleið," útskýrði Haraldur. Hann bætti því við að mjög líklega stæði þessi hlýnun í beinu sambandi við hækkandi lofthita í heiminum.

Kjörhitastig bleikju lægra en urriða

„Bleikjustofninn hefur minnkað en urriðastofninn í vatninu stendur í stað. Það er því eitthvað að gerast þarna sem hefur áhrif á bleikjuna en ekki urriðann," sagði Haraldur enn fremur. Hann sagði kjörhitastig bleikju lægra en urriða sem gæti verið hluti skýringarinnar. Bleikjan æli allan sinn aldur í vatninu en urriðinn leitaði hins vegar upp í ár og læki til hrygningar. Ylli þetta því að urriðinn skilaði sér yfirleitt ekki í vatnið fyrr en eins til tveggja ára gamall og þyldi því e.t.v. hitann betur.

„Bleikjan í vatninu er í tiltölulega góðu ástandi. Hún hefur fínt holdafar og virðist hafa nóg að bíta og brenna. En það er eitthvað sem er að skera stofninn niður og þetta vita menn ekki alveg hvað er. Það hefur hins vegar ekkert breyst nema hitastigið svo það liggur undir grun," útskýrði Haraldur.

Hann útskýrði að hlutdeild bleikju í því sem veiddist í Elliðavatni hefði frá 1986 minnkað úr 50 - 60% niður í 10 - 20%. Fyrirlesturinn er haldinn í fundarherbergi Náttúrufræðistofunnar klukkan 17.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×