Innlent

Samráð um framkvæmdir á gatnamótum

Borgaryfirvöld ætla að hafa samráð með íbúum í Hlíðunum og nágrenni um framkvæmdir tengdum mislægum gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Á annað hundrað manns mættu á kynningarfund sem haldinn var um málið í gær.

Fundurinn var haldinn á vegum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar að beiðni íbúsamtaka 3. hverfis sem eru Hlíðar, Holtin og Norðurmýrin ásamt íbúasamtökum Háaleitishverfis. Þar voru kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir og tillögur borgaryfirvalda og Vegagerðarinnar að mislægum gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar kynntar.

Íbúasamtökin á svæðinu hafa hvatt borgaryfirvöld til þess að ráðast ekki í framkvæmdir á mislægum gatnamótum án tillits til íbúa. Þá hafa þau gagnrýnt forgangsröðunina á verkinu og lagt til breytingar á því. Endanlegar tillögur borgaryfirvalda liggja þó ekki enn fyrir.

Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis og samgönguráðs Reykjavíkur, lýsti því yfir á fundinum í gær við mikinn fögnuð íbúanna að til stæði að stofna samráðsnefnd með íbúasamtökunum um fyrirhugaðar framkvæmdir. Nefndin verður stofnuð á næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×