Innlent

Meðallaun á almennum vinnumarkaði 368 þúsund krónur

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Pjetur

Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 303 þúsund krónur á mánuði árið 2007. Þetta leiðir nú samantekt Hagstofunnar í ljós. Þar segir enn fremur að regluleg laun fullvinnandi launamanna voru 330 þúsund krónur að meðaltali og regluleg heildarlaun, það er regluleg laun ásamt yfirvinnu, voru 368 þúsund krónur. Hinn venjulegi launamaður fékk um 45 greiddar stundir á viku á síðasta ári.

Heildarlaun fullvinnandi launamanna reyndust 424 þúsund krónur að meðaltali á mánuði, en með heildarlaunum er átt við regluleg heildarlaun að viðbættum ýmsum greiðslum sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili svo sem desemberuppbót og afkomutengdar greiðslur.

Ekki kemur á óvart að laun stjórnenda voru hæst og laun verkafólks lægst en heildarlaun voru á bilinu 316 til 826 þúsund krónur. Ef litið er til atvinnugreina voru laun fullvinnandi launamanna hæst í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum. Þar voru regluleg laun 425 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun 610 þúsund krónur.

Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru lægst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða 298 þúsund krónur. Heildarlaun voru hins vegar lægst í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 365 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×