Innlent

Helmingur ráðherra í útlöndum

Helmingur ráðherra ríkisstjórnarinnar er og hefur verið í útlöndum þessa vikuna, á meðan stjórnarandstaðan og fleiri gagnrýna hana fyrir aðgerðarleysi í efnahagsmálum og flottræfilshátt við ferðalög.

Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu mátt sæta gagnrýni vegna aðgerðaleysis í þeirri fjármálakreppu sem nú gengur yfir. Stjórnarandstaðan og aðilar á vinnumarkaði eru meðal þeirra sem kallað hafa eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, en hún virðist önnum kafin við annað ef marka má ferðalög ráðherranna undanfarna daga.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra hefur verið á faraldsfæti undanfarna daga. Í síðustu viku var hann í Svíþjóð og í dag var hann staddur í Boston, en hélt til Nýfundnalands í dag þar sem viðamikil dagskrá bíður hans. Er hann væntanlegur til landsins á miðvikudag.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, er í Washington þar sem hún átti meðal annars fund með Conduleezzu Rice og í dag situr hún fund Alþjóðabankans um loftlagsmál.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hélt í opinbera heimsókn til Kína í gær þar sem hann hittir meðal annars ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála og aðstoðarráðherra utanríkismála, auk þess sem hann heimsækir íslensk fyrirtæki.

Össur Skarphéðinsson hefur undanfarna daga verið á ferð í Afríku, en hann hefur verið að kynna sér orkumál í Eþíópíu, Jemen og Djíbútí. Össur kom heim úr vikuferð sinni í gær.

Kristján Möller hélt hins vegar í opinbera heimsókn til Brussel í dag þar sem hann ræðir við framkvæmdastjóra samöngu-, fjarskipta- og byggðamála. Stendur sú ferð fram á miðvikudag.

Loks er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stödd í Þýskalandi í einkaerindum og er hún væntanleg aftur til starfa í byrjun vikunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×